Mormónabörn drepin í hrottalegri árás

Lögreglumenn að störfum í Sinaloa-fylki í Mexíkó. Mynd úr safni.
Lögreglumenn að störfum í Sinaloa-fylki í Mexíkó. Mynd úr safni. AFP

Fimm bandarískir ríkisborgarar hið minnsta létust í hrottalegri árás í Mexíkó. Hin látnu eru kona og fjögur börn hennar og eru þau talin hafa orðið fyrir mistök fórnarlömb árásar fíkniefnahrings í  norðurhluta Mexíkó.

BBC segir hin látnu tilheyra LeBaron-fjölskyldunni, sem á rætur í samfélagi mormóna sem settist að í Mexíkó fyrir nokkrum áratugum.

Myndbandsupptökur sem birtar hafa verið af vettvangi árásarinnar sýna brunnið bílflak og er talið að einhverjir þeirra sem í bílnum voru hafi verið brenndir lifandi. Nokkurra einstaklinga til viðbótar er enn saknað og telja staðarfjölmiðlar líklegt að ráðist hafi verið á fórnarlömbin fyrir mistök.

Haft hefur verið eftir LeBaron-fjölskyldunni að þrjár konur úr fjölskyldunni með 14 börn sín hafi lagt af stað í bílalest frá Bavispe í Sonora-fylkinu og verið á leið til La Mora í nágrannafylkinu Chihuahua. Talið er að hluti hópsins sé með bæði mexíkóskan og bandarískan ríkisborgararétt.

Hópurinn varð hins vegar fyrir árás byssumanna strax í Bavispe og nokkru síðar fannst brunnið flak skothelds jepplings með líkamsleifum fórnarlambanna skammt frá veginum.

Nokkrir mexíkóskir fjölmiðlar hafa fullyrt að fleiri hafi svo fundist látnir á öðrum stað en að talið sé þó að hluti hópsins hafi lifið árásina af. Segir BBC að þar sem að minnsta kosti hluti hinna látnu voru Bandaríkjamenn megi búast við að málið hafi afleiðingar fyrir þarlend stjórnvöld.

Andrés Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, hefur sagst vera að beita nýrri aðferð gegn fíkniefnasamtökum landsins sem byggi á minna ofbeldi og átökum, en gagnrýnendur forsetans segja öryggisáætlun hans skorta staðfestu. Þrýstingur fer þó vaxandi á stjórnvöld landsins í þessum efnum, ekki hvað síst eftir að lögregla í Sinaloa lét son fíkniefnabarónsins El Chapo Guzman lausan úr haldi í síðasta mánuði þegar hún var yfirbuguð af mönnum Guzmans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert