Segir stuðning við Úkraínu „líklega“ hafa verið skilyrtan

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjastjórnar gagnvart Evrópusambandinu, kom fyrir þingnefnd um …
Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjastjórnar gagnvart Evrópusambandinu, kom fyrir þingnefnd um miðjan október. AFP

Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjastjórnar gagnvart Evrópusambandinu, breytti framburði sínum fyrir þingnefnd sem rannsakar samskipti Donald Trump Bandaríkjaforseta við Volodimír Zelenskí for­seta Úkraínu.

BBC greinir frá.

Sondland segir nú að hann muni eftir því að hafa sagt úkraínskum embættismönnum að varnamálastyrkur Bandaríkjanna til Úkraínu væri „líklega“ háður því skilyrði að yfirvöld í Úkraínu myndu hefja rannsókn á orkufyrirtækinu Burisma sem Hunter Biden, sonur Joe Biden andstæðings Trump, vann fyrir.

Bætti við fyrri framburð sinn

Þetta kom fram í uppskrift af framburði Sondland fyrir þingnefndinni í síðasta mánuði og var birtur í dag.

Sondland hafði áður neitað að styrkurinn hefði verið frystur vegna pólitískra ástæðna. Sondland bætti þremur blaðsíðum af upplýsingum við framburð sinn fyrir þingnefndinni.

Donald Trump þvertekur fyrir að hafa sett það sem skilyrði fyrir styrknum að yfirvöld í Úkraínu myndu hefja rannsóknina.

Man núna eftir samtali við aðstoðarmann forseta Úkraínu

„Ég man núna eftir því að hafa rætt einslega við hr. Yermak [aðstoðarmann forseta Úkraínu] þar sem ég tók fram að ákvörðun um að veita styrkinn yrði líklega ekki endurupptekin fyrr en úkraínsk yfirvöld gæfu út yfirlýsingu gegn spillingu sem við höfðum talað um í margar vikur,“ sagði Sondland í framburði sínum fyrir þingnefndinni.

Þingnefndin rannsakar hvort Donald Trump hafi nýtt sér stöðu sína sem Bandaríkjaforseti og haft óeðlileg áhrif á erlend stjórnvöld í því skyni að skaða pólitískan andstæðing sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert