Systir Baghdadi handtekin

Rasmiya Awad er systir Abu Bakr al-Baghdadi en hún var …
Rasmiya Awad er systir Abu Bakr al-Baghdadi en hún var handtekin í gærkvöldi. AFP

Tyrkneskar hersveitir hafa tekið systur Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga vígasamtakanna Ríkis íslams, til fanga en Baghdadi sprengdi sig í loft upp í aðgerðum bandarískra sérsveita nýverið.

„Tyrkir hafa fangað systur Abu Bakr al-Baghdadi í áhlaupi skammt frá bænum Azaz,“ hefur AFP-fréttastofan eftir heimildarmanni úr tyrkneska stjórnkerfinu.

Hann segir að konan heiti Rasmiya Awad og sé fædd árið 1954. Þegar hún var handtekin var hún með eiginmanni sínum, tengdadóttur og fimm börnum. Hann segir að yfirheyrslur standi yfir þeim fullorðnu og bætir við að handtakan geti orðið að gullnámu fyrir leyniþjónustur. 

„Það sem hún veit um Ríki íslams getur aukið þekkingu okkar á samtökunum umtalsvert. Aðstoðað okkur við að handtaka fleiri liðsmenn og hjálpað Tyrklandi til að verja sig og önnur lönd Evrópu fyrir hryðjuverkamönnum,“ segir heimildarmaðurinn. 

Sýrlensku samtökin Syrian Observatory for Human Rights staðfesta handtökuna og segir yfirmaður samtakanna, Rami Abdel Rahman, að hún hafi verið handtekin í gærkvöldi í úthverfi Azaz. „Þeir handtóku hana, eiginmann hennar og tengdadóttur auk fimm barnabarna.“

Að sögn Rahman voru einnig fjórir aðrir Írakar handteknir en hann viti ekki á þessari stundu hvort eða hvernig þeir tengist Ríki íslams.

Bærinn Azaz er í héraði sem er nú undir stjórn Tyrkja í norðvesturhluta Sýrlands. 

Kenneth McKenzie herforingi sést hér með mynd af Abu Bakr …
Kenneth McKenzie herforingi sést hér með mynd af Abu Bakr al-Baghdadi á bak við sig á blaðamannafundi nýverið. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, tilkynnti sunnudaginn 27. október um dauða Baghdadi. 

Trump segir að al-Baghdadi hafi sprengt sprengjuvesti sem hann hafi klæðst eftir að sérsveit bandaríska hersins hafði fundið hann í enda neðanjarðarganga.

Trump sagði að Baghdadi hefði flúið undan hermönnunum inn í blindgöng í Idlib-héraði, „snöktandi, skælandi og öskrandi“ alla leið með sérsveitina á hælum sér. Hermt er að þetta hafi gerst í fyrrakvöld, laugardag. Í fylgd með Baghdadi hafi verið þrjú ung börn hans og hafi þau öll beðið bana er sprengjuvestið sprakk. Rannsókn á lífsýni hefur staðfest að um Baghdadi var að ræða.

„Ómennið sem lagði svo hart að sér að hræða aðra skalf af hræðslu síðustu augnablikin sem hann lifði, í algjörri örvinglan og ótta, skelfingu lostinn yfir því að bandaríska sveitin var að króa hann af,“ sagði Trump.

Baghdadi tók við sem leiðtogi Ríkis íslams er hann lýsti yfir stofnun kalífaveldis 2014 í Írak og Sýrlandi. Hryðjuverkasveitirnar hafa framið fjölda ódæðisverka sem kostað hafa þúsundir óbreyttra borgara lífið. Samtökin beittu íbúa á svæðum undir þeirra yfirráðum hrottalegu harðræði. Kalífaveldi hans leið undir lok fyrr á árinu.

Raunverulegt nafn Baghdadi var Ibrahim Awwad Ibrahim al-Badri en ítarlega var fjallað um hann á mbl.is nýverið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert