Bercow: Brexit stærstu mistökin frá því í stríðinu

John Bercow segir Brexit stærstu mistök Bretlands frá því í …
John Bercow segir Brexit stærstu mistök Bretlands frá því í heimstyrjöldinni síðari. AFP

John Bercow, sem þar til í byrjun þessa mánaðar var forseti breska þingsins, sagði í ræðu sem hann hélt fyrir erlenda fjölmiðla að Brexit væru stærstu mistök sem breska þjóðin hafi gerst sek um frá því í heimstyrjöldinni síðari.

Bercow var í starfi sínu sem þingforseti ítrekað sakaður af þingmönnum hlynntum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu að styðja hina hliðina. Hann játaði á fundinum með fréttamönnum að sjálfur teldi hann Bretum betur borgið innan ESB.

„Ég tel þetta ekki koma Bretlandi vel. Brexit er stærstu mistök sem landið hefur gert frá því í stríðinu,“ sagði Bercow. „Ég ber virðingu fyrir forsætisráðherranum [Boris Johnson], en Brexit hjálpar okkur ekki. Það er betra að tilheyra ESB valdablokkinni,“ hefur Guardian eftir fréttaritara spænska dagblaðsins La Repubblica að Bercow hafi sagt.

Bercow hafnaði því þó alfarið að það væri hann sem hefði komið í veg fyrir útgöngu Bretlands og sagði það hafa verið þingið sem kom í veg fyrir útgönguna ekki hann sjálfur.

Eftir að hafa verið þingmaður Íhaldsflokksins fyrir Buckingham frá því 1997 ætlar Bercow nú að láta af þingmennsku. Hann er þessa daganan með ævisögu sína í vinnslu og segir Guardian búist við að hann bætist í hóp vel launaðra fyrirlesara við veisluhöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert