Foreldrar ungbarns með sjaldgæfan sjúkdóm stungu af

Drengurinn hefur verið í umsjá heilbrigðisstarfsfólks á Sant'Anna sjúkrahúsinu í …
Drengurinn hefur verið í umsjá heilbrigðisstarfsfólks á Sant'Anna sjúkrahúsinu í Tórínó frá því að hann fæddist í ágúst en nú hafa foreldrar hans yfirgefið hann og ekki hefur tekist að hafa uppi á þeim. Mynd úr safni. AFP

Fjögurra mánaða gamalt barn með sjaldgæfan húðsjúkdóm, sem lýsir sér í ofnæmi fyrir sólarljósi, var skilið eftir á sjúkrahúsi í Tórínó á Norður-Ítalíu. 

Drengurinn, sem heitir Giovannino, er með afar sjaldgæfan arfgengan húðsjúkdóm, harlequin ichthyosis, sem veldur því að húðin verður hörð og þykk. Giovannino hefur verið í umsjá heilbrigðisstarfsfólks á Sant'Anna sjúkrahúsinu í Tórínó frá því að hann fæddist í ágúst en nú hafa foreldrar hans yfirgefið hann og ekki hefur tekist að hafa uppi á þeim. 

„Ég veit ekki hver ástæðan er, eina sem við vitum er að barnið hefur verið yfirgefið,“ segir einn hjúkrunarfræðingurinn sem hefur séð um Giovannino í samtali við La Stampa, en viðkomandi kaus að koma fram undir nafnleynd. 

Giovannino fer nú á milli deilda og skiptist starfsfólk sjúkrahússins á um að annast hans. „Okkur dreymir um að hann fái fljótlega sitt eigið herbergi.“

Fjöldi fólks býðst til að ættleiða Giovannino

Borgaryfirvöldum hefur verið gerð grein fyrir stöðu Giovannino og ítrekað hefur verið reynt að hafa uppi á foreldrum drengsins. Unnið er að því að finna tímabundið heimili fyrir Giovannino en það getur reynst erfitt sökum heilsufars hans. 

„Hann er sætur og brosmildur og elskar að vera á vappi um sjúkrahúsið,“ segir Daniela Farina, deildarstjóri fæðingardeildar sjúkrahússins. „Hann verður líka mjög glaður þegar einhver spilar fyrir hann tónlist,“ bætir hún við. 

Almenningur brást fljótt við fregnunum og hefur sjúkrahúsinu borist skilaboð frá fólki sem óskar eftir því að fá að ættleiða Giovannino. Borgaryfirvöld segjast vilja gera sitt besta til að finna viðunandi fósturheimili fyrir drenginn þar sem öllum þörfum hans verður sinnt.

Frétt BBC

mbl.is