Lýsti áhyggjum af súrefniskerfi Boeing-véla

787 Dreamliner-vél í eigu ástralska Quantas-flugfélagsins.
787 Dreamliner-vél í eigu ástralska Quantas-flugfélagsins. AFP

Verkfræðingur sem starfaði í gæðaeftirliti Boeing flugvélaframleiðandans fullyrðir að sú staða geti komið upp í Dreamliner 787-breiðþotum Boeing að farþegar verði súrefnislausir komi til skyndilegrar þrýstiminnkunar um borð.

BBC hefur eftir verkfræðingnum John Barnett að prófanir hafi gefið til kynna að allt að fjórðungur súrefniskerfisins kunni að vera gallaður og virki ekki þegar hans sé þörf. Barnett fullyrðir enn fremur að gölluðu íhlutunum hafi vitandi vits verið komið fyrir í vélum í einni af verksmiðjum Boeing.

Boeing, sem hefur sætt harðri gagnrýni undanfarið vegna 737 Max-farþegaþota sinna, hafnar þessum ásökunum alfarið og segir vélar sínar byggðar í samræmi við hæstu öryggis- og gæðakröfur.

Tilslakanir gerðar varðandi öryggi

Barnett starfaði í 32 ár hjá Boeing, eða allt þar til hann lét af störfum af heilsufarsástæðum í mars árið 2017. Frá 2010 starfaði hann sem yfirmaður gæðamála í verksmiðju Boeing í Norður-Charleston í Suður-Karólínuríki.

Sú verksmiðja er önnur tveggja sem framleiða 787 Dreamliner-vélarnar, sem notaðar eru á lengri flugleiðum víða um heim. Eftir nokkur vandkvæði í byrjun hefur vélin notið mikilla vinsælda hjá flugfélögum víða um heim. Þess má geta að Icelandair, sem nýtir Boeing-vélar í sínu áætlanaflugi, hefur engar þotur þessarar tegundar.

Barnett segir asann við að koma vélunum í loftið hins vegar hafa verið slíkan að tilslakanir hafi verið gerðar varðandi öryggi vélanna. Þessu neitar Boeing og segir „öryggi, gæði og heiðarleika“ vera kjarnagildi Boeing.

Sjálfur kveðst Barnett hafa árið 2016 uppgötvað vanda við neyðarsúrefniskerfi vélanna. Því er ætlað að halda lífi í farþegum og áhöfn falli þrýstingur skyndilega. Við þetta eiga súrefnisgrímur að falla úr loftinu og veita aðgang að súrefni sem geymt er í gaskútum.

Án slíks kerfis yrðu þeir sem um borð eru fljótt óstarfhæfir og má jafnvel búast við að fólk missi meðvitund á innan við mínútu þegar komið er upp í 35.000 feta hæð.

Þótt það gerist sjaldan að þrýstingur falli skyndilega kemur slíkt þó fyrir. Slíkt atvik átti sér til að mynda stað í apríl 2018 þegar gluggi gaf sig á vél í eigu Soutwest Airlines. Sá sem sat við gluggann slasaðist alvarlega og lést síðar en súrefnisgríman bjargaði öðrum sem um borð voru.

Hunsaði kröfur um frekari skoðun

Það var við rannsókn á íhlutum sem höfðu skaddast útlitslega sem Barnett uppgötvaði að ekki allir súrefniskútar virkuðu sem skyldi. Í kjölfarið lét hann gera prófanir sem líktu eftir þrýstingsfalli á 300 súrefniskútum af lager Boeing og virkuðu 75, eða 25%, ekki sem skyldi.

Boeing hunsaði hins vegar alfarið tilraunir hans til að láta skoða málið frekar. 2017 sendi hann kvörtun til bandaríska flugumferðaeftirlitsins FAA um að ekkert hefði verið gert í málinu. FAA sagðist hins vegar ekki geta staðfest þá fullyrðingu af því að Boeing hefði gefið í skyn að verið væri að vinna að lausn vandans.

Boeing hafnar alfarið ásökunum Barnetts, en segir að nokkrir súrefniskútar sem fyrirtækið fékk frá birgja árið 2017 hafi ekki virkað sem skyldi. Þeir hafi hins vegar verið fjarlægðar og tekið á málinu með birgjanum.

Fullyrðir fyrirtækið að hvert einasta súrefniskerfi sem komið sé fyrir í vélunum sé margprófað áður en það er sett upp og slík próf séu líka gerð sem hluti af reglulegum þjónustuprófunum.

Skipað að grípa til aðgerða

Barnett segir hins vegar Boeing ekki hafa fylgt eigin ráðleggingum og að hluti gallaðra íhluta hafi „týnst“ í framleiðsluferlinu, auk þess sem þrýstingurinn hafi verið slíkur að íhlutir sem settir höfðu verið í ruslið voru nýttir við framleiðslu í að minnsta kosti einu tilviki sem hann veit um.

„Boeing í Suður-Karólínuríki er drifið áfram af áætlun og kostnaði,“ segir hann.

FAA tók undir áhyggjur Barnett vegna týndu íhlutanna árið 2017 og var Boeing skipað að grípa til aðgerða vegna þessa.

Barnett, sem á þessa stundina í málferlum við Boeing sem hann sakar um mannorðsmeiðingar, er ekki  eini starfsmaður fyrirtækisins sem hefur lýst yfir áhyggjum af framleiðsluferlinu. Greint var frá því fyrr á þessu ári í kjölfar mannskæðra flugslysa Max 737-véla, að fjórir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Boeing hefðu tilkynnt FAA um möguleg vandamál tengd vélunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert