„Þetta var fjöldamorð“

Ættingjar þeirra sem létust í árásinni.
Ættingjar þeirra sem létust í árásinni. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur boðið mexíkóskum yfirvöldum fram aðstoð við að hafa hendur í hári morðingja níu mormónakvenna og -barna sem voru skotin til bana. Bandaríkin stæðu við bakið á nágrönnum sínum í stríðinu gegn fíkniefnahringjunum.

Fórnarlömbin eru í svonefndri LeBaron-fjölskyldu, fjölmennri ætt úr röðum mormóna sem klauf sig út úr mormónakirkjunni í Bandaríkjunum og flutti búferlum til Mexíkó fyrir nokkrum áratugum. Árásin var gerð á sveitavegi í mexíkóska ríkinu Sonora þegar fólkið var í þremur bílum á leið á flugvöll í ríkinu Chihuahua. Lík nokkurra fórnarlambanna fundust síðar í einum bílanna, sem hafði gereyðilagst í eldi, og hermt er að önnur hafi verið skotin til bana þegar þau reyndu að flýja.

Tveir fíkniefnasmyglhópar hafa barist um yfirráð yfir svæðinu þar sem árásin var gerð og sagði öryggismálaráðherra Mexíkó að byssumennirnir kynnu að hafa ráðist á fólkið fyrir mistök, haldið að það tilheyrði öðrum glæpahópanna. LeBaron-fjölskyldan hefur þó áður orðið fyrir árásum glæpamanna á svæðinu. Einu skyldmenni fjölskyldunnar, Erick LeBaron, var rænt árið 2009 og ræningjar hans kröfðust lausnargjalds en hún neitaði að greiða það, þar sem hún taldi að glæpamennirnir rændu fleira fólki ef orðið yrði við kröfunni. Maðurinn var seinna látinn laus án þess að lausnargjald væri greitt en nokkrum mánuðum síðar var bróðir hans, Benjamin, barinn til bana. Mágur Benjamins var einnig myrtur. Fjölskyldan hefur mótmælt ofbeldi glæpahópanna og hvatt íbúa Mexíkó til að berjast gegn glæpastarfseminni, að því er fram kom í frétt Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í dag.

Þrjár konur og sex börn létust í árásinni. Sex börn til viðbótar særðust, þar af tvö alvarlega. 

„Ef Mexíkó þarf eða óskar eftir aðstoð við að hreinsa upp þessi skrímsli eru Bandaríkin reiðubúin, vilja og geta tekið þátt og unnið verkið hratt og á áhrifaríkan hátt,“ skrifar Trump á Twitter.

Hann hrósaði forseta Mexíkó, Andrés Manuel López Obrador, fyrir að leggja áherslu á baráttuna gegn eiturlyfjasmygli en sagði að smyglhringirnir væru orðnir svo öflugir að stundum væri nauðsynlegt að beita þá hervaldi. „Nú er tímabært að Mexíkó, með hjálp Bandaríkjanna, heyi STRÍÐ gegn smyglhringunum og þurrki þá af yfirborði jarðar,“ sagði Trump áTwitter.

AFP

López Obrador sagðist þiggja alla nauðsynlega samvinnu til þess að réttvísin nái fram að ganga en fórnarlömbin eru öll með tvöfalt ríkisfang þrátt fyrir að búa Mexíkómegin. Hann sagðist aftur á móti ekki ætla að hefja nýtt stríð gegn fíkniefnunum og þar séu hann og Trump ekki sammála. Hann hringdi í Trump og þakkaði honum fyrir stuðninginn. Samkvæmt upplýsingum úr Hvíta húsinu ræddu þeir meðal annars aukið ofbeldi tengt skipulögðum glæpasamtökum. 

LeBaron-fjölskyldan hefur fordæmt árásina á samfélagsmiðlum og biðja fólk um að minnast þeirra í bænum sínum. 

„Þetta var fjöldamorð,“ segir Julian LeBaron, aðgerðasinni sem hefur fordæmt glæpasamtök á svæðinu. Hann segir að konurnar sem voru drepnar hafi verið á leiðinni út á flugvöll þegar setið var fyrir þeim. Nokkur börn náðu að flýja og komust heim fótgangandi. Þriggja mánaða gamalt barn fannst sært en á lífi við hlið móður sinnar á vettvangi glæpsins. Átta ára gömul stúlka var týnd í sólarhring en hún fannst heil á húfi nokkrum kílómetrum frá vettvanginum. Ættingjar segja að börnin sem lifðu af glími við alvarlega áfallastreituröskun og fimm særð börn hafi verið flutt með sjúkraflugi til Phoenix í Arizona.

Fimm barnanna eru komin á barnaspítala í Arizona.
Fimm barnanna eru komin á barnaspítala í Arizona. AFP
mbl.is