64 ára gamalt mannshvarf upplýst

Sýnin sem blasti við Kjell Norli í kartöflugarði hans í …
Sýnin sem blasti við Kjell Norli í kartöflugarði hans í Mandal í september. Stígvél, kirfilega merkt „Made in Norway“, með mannabeinum í og umhverfis, og önnur norsk framleiðsla við hliðina, Krag-Jørgensen-herriffill sem framleiddur var í Noregi frá 1887 og fram á daga síðari heimsstyrjaldarinnar. Rannsóknarlögreglan Kripos sló því föstu í dag að þarna fundust jarðneskar leifar Arne Odd Torgersen sem hvarf voveiflega í Mandal fyrir 64 árum. Ljósmynd/Kjell Norli/Úr einkasafni

Fá mál hlutu annað eins umtal á sjötta áratug síðustu aldar og hið voveiflega hvarf Arne Odd Torgersen, 21 árs gamals manns, frá heimili sínu í Holum í Mandal í Suður-Noregi. Torgersen bjó hjá fósturforeldrum og var ætlað að mæta fyrir dómara 18. janúar 1955 ásamt nokkrum félögum sínum vegna gruns um að þeir hefðu staðið að innbroti.

Torgersen mætti ekki við það þinghald og raunar sá hann aldrei nokkur maður eftir að hann klifraði út um glugga á herbergi sínu aðfaranótt 18. janúar og hvarf umheiminum.

Í september nú í haust uppskar Kjell Norli í kartöflugarði sínum í Mandal og grunaði umsvifalaust, þegar hann horfði skyndilega á stígvél með mannabeinum í og gamlan riffil í moldinni, að hann hefði leyst gátuna um hvarf Torgersen, mál sem hann þekkti mætavel eins og flestir rótgrónir íbúar svæðisins sem komnir eru af léttasta skeiði.

Krag-Jørgensen-riffill sem hvarf í Holum

Í október sló rannsóknarlögreglan Kripos því föstu að riffillinn í kartöflugarðinum væri af gerðinni Krag-Jørgensen, þeirri sömu og riffill sem tilkynntur var stolinn af heimili í Holum skömmu fyrir hvarf Torgersen. Á því heimili bjó einmitt einn félaganna sem mæta áttu í réttinn með Torgersen 18. janúar og lá fjölskylda hans um tíma undir grun um að hafa komið Torgersen fyrir kattarnef. Ýmsir kvittir flugu um Mandal vikurnar eftir hvarfið, þar á meðal sá að mjög hefði verið lagt að Torgersen að undirrita skriflega yfirlýsingu um að hann hefði einn staðið á bak við innbrotið.

Umfangsmikil leit var gerð að Torgersen eftir hvarf hans, fjöldi …
Umfangsmikil leit var gerð að Torgersen eftir hvarf hans, fjöldi vísbendinga barst, ótal kenningar um ótal atburðarásir komu fram, en allt kom fyrir ekki. Nú er Torgersen fundinn, 64 árum eftir að hann hvarf sporlaust. Ljósmynd/Lögreglan í Vest-Agder

Eins hafði fleira heyrst og sést. Fjöldi fólks greindi lögreglu frá því að það hefði heyrt skothvell nóttina örlagaríku. Aðrir sögðust hafa heyrt hvellinn fyrr, klukkan hálfellefu um kvöldið. Nítján ára gamall drengur, Finn Haugedal, sagðist hafa séð blóðslóð í nýfallinni fönn eldsnemma um morguninn og rakið hana út á ísilagða Mandalsána þar sem hún hafi endað við opna vök. Varð framburður hans til þess að kafarar í froskbúningum þessa tíma leituðu dögum saman í ánni er snjóa leysti án þess að hafa erindi sem erfiði og segir þetta tíu sekúndna langa myndskeið frá 1955 ef til vill meira en mörg orð.

Kripos bar kennsl á Torgersen í dag

Fjölskylda nokkur sagði Torgersen hafa knúið dyra á heimili hennar um miðja nótt og beðið um tuskur þar sem hann mæddi mjög blóðrás. Kona að nafni Gunlaug Nøkland, þá barn að aldri, sagði skothvellinn hafa heyrst vel við heimili hennar og hefði faðir hennar, ásamt fleirum á heimilinu, heyrt hvellinn. Enn fremur sagði hún að í birtingu morguninn eftir hefði mátt sjá för í snjónum, eins og eitthvað þungt hefði verið dregið eftir jörðinni og niður að ánni.

Aftenposten skrifar um málið einu og hálfu ári eftir hvarfið …
Aftenposten skrifar um málið einu og hálfu ári eftir hvarfið og veltir því upp hvort lík, sem fundist hafði í fiskikassa sem rak upp á Schleswig-ströndina í Þýskalandi, hafi verið af Torgersen. Nú er ljóst að Torgersen fór aldrei frá Mandal þar sem hann hvarf. Ljósmynd/Bloggsíðan Krim til kaffen

Hvað sem líður ótal framburðum, vísbendingum og getgátum er ljóst að Arne Odd Torgersen endaði ekki líf sitt í votri gröf Mandalsárinnar þessa janúarnótt fyrir 64 árum. Í dag sló kennslanefnd Kripos-lögreglunnar því föstu, eftir að hafa borið DNA-erfðaefni úr beinunum saman við erfðaefni 75 ára gamallar frænku Torgersen, tveggja systra hennar og annars frænda að auki, að Torgersen væri fundinn í kartöflugarði Kjell Norli.

Staðsetningin er reyndar ekki út í hött. Á dögum síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar Noregur var hnepptur í fjötra þýsks hernámsliðs í fimm ár og einn mánuð, var afdrep byggt á því sem nú er kartöfluakur Norli, kofi eða hús sem íbúar í nágrenninu áttu að geta leitað skjóls í brytust átök út í Mandal og nágrenni. Sú bygging er löngu horfin á braut, en leiða má líkur að því að janúarnótt eina árið 1955 hafi 21 árs gamall grunaður innbrotsþjófur, hugsanlega særður skotsári og líklega með Krag-Jørgensen-riffil meðferðis, lagst, eða verið lagður, til hinstu hvílu í gamla styrjaldarafdrepinu.

NRK (kennsl borin á Torgersen í dag)

NRK (stígvélin finnast í haust)

NRK (rætt við Haugedal, nú 83 ára, um blóðslóðina sem hann fann)

Dagbladet (DNA-prófin)

VG

mbl.is