Adèle Haenel stígur fram

Adèle Haenel á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2017. Kvikmyndin 120 battements par …
Adèle Haenel á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2017. Kvikmyndin 120 battements par minute sem Haenel lék í hlaut Grand Prix-verðlaunin á Cannes 2017. AFP

Lýsingar þekktrar leikkonu, Adèle Haenel, á því hvernig hún var beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu leikstjóra fyrstu myndarinnar sem hún lék í skekur franska kvikmyndaheiminn um þessar mundir. Haenel var tólf ára gömul þegar þetta var.

Adèle Haenel segist hafa ákveðið að stíga fram eftir að hafa horft á heimildarmyndina Leaving Neverland en þar er sambandi Michael Jacksons við börn lýst. „Þetta breytti viðhorfi mínu,“ segir Haenel í ítarlegu viðtali við fréttavefinn Mediapart.

„Þetta fékk mig til að sjá að ég hafði allt of lengi horft á útgáfu [kvikmyndaleikstjórans] Christophe Ruggia, að þetta hafi allt verið ástarsaga [...] Þetta fékk mig til þess að skilja regluverk stjórnunar og hrifningar,“ segir hún í viðtalinu. 

Haenel, sem er þrítug í dag, var eins og áður sagði aðeins 12 ára gömul þegar hún lék í kvikmynd Ruggia, Les Diables (Djöflarnir). Hún lék einhverfa og munaðarlausa stúlku í myndinni sem fer ásamt bróður sínum að leita að foreldrum þeirra.

Samkvæmt grein Mediapart, þar sem meðal annars er byggt á viðtölum við yfir 30 einstaklinga, á Ruggia að hafa verið heltekinn af þessari ungu stjörnu í kvikmyndinni. Aðrir leikarar og starfsfólk myndarinnar segja að andrúmsloftið við gerð myndarinnar hafi verið mjög óheilbrigt.

Haenel og Ruggia fóru víða saman til að kynna myndina og hann greindi síðar frá því að hafa boðið henni heim til sín.

Að sögn Haenel var það þar sem hann snerti hana fyrst og reyndi að kyssa hana. Hann sagðist elska hana. Þegar hún var 15 ára gömul reyndi hún að slíta tengslin við Ruggia og leitaði aðstoðar fólks í kringum hann við litlar undirtektir.

Nú í vikunni var Ruggia rekinn úr sambandi kvikmyndaleikstjóra í Frakklandi, Société des réalisateurs de films, en hann hefur verið framarlega í starfsemi félagsins. Aldrei áður hefur félagi í samtökunum verið rekinn áður. 

Frétt Le Monde

Haenel hefur ekki viljað leggja fram kæru á hendur Ruggia og segist ekki treysta franska réttarkerfinu. Aftur á móti hefur saksóknari hafið rannsókn á ummælum hennar opinberlega. Til rannsóknar er kynferðisleg áreitni í garð barns. 

Frétt BBC

Ruggia neitar kynferðislegri misnotkun en viðurkennir að hafa gert mistök í samskiptum við og gagnvart Haenel. Hann segir að á þessum tíma hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að þetta hafi verið of mikil aðdáun í garð svo ungrar stúlku og hann bæðist afsökunar á því. „Verið er að útiloka mig félagslega og það er ekkert sem ég get gert til þess að forðast útilokunina,“ segir Ruggia sem er 54 ára gamall í dag. 

Ruggia hefur aðeins gert örfáar kvikmyndir og engin þeirra hefur vakið mikla athygli. Undanfarin ár hefur hann barist fyrir réttindum innflytjenda í Frakklandi. 

Adèle Haenel hefur leikið í 25 kvikmyndum og í tvígang hlotið Sesar-verðlaunin sem eru frönsku Óskarsverðlaunin.

Fleiri fréttir Le Monde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert