Ekkja Baghdadi hefur veitt miklar upplýsingar

Asma Fawzi Muhammad Al-Qubaysi er sögð vera fyrsta eiginkona Abu …
Asma Fawzi Muhammad Al-Qubaysi er sögð vera fyrsta eiginkona Abu Bakr al-Baghdadi. Hún hefur verið í haldi Tyrkja allt frá því 2. júní 2018 og veitt ýmsar upplýsingar síðan þá. AFP

Ekkja Abu Bakr al-Baghdadi hefur veitt tyrkneskum yfirvöldum „mikið af upplýsingum“ um starfsemi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki íslams, síðan hún var handsömuð á síðasta ári.

Samkvæmt tyrkneskum embættismönnum hefur hún verið í haldi tyrkneskra yfirvalda allt frá því 2. júní í fyrra, en þá var hún handtekin í Hatay-héraði, nærri landamærum Tyrklands og Sýrlands. Dóttir þeirra hjóna var með henni í för.

Hún er sögð vera fyrsta eiginkona hins fallna hryðjuverkaleiðtoga og mun hún heita Asma Fawzi Muhammad Al-Qubaysi.

Fyrst um sinn reyndu hún og dóttir hennar að leyna því hverjar þær voru, en Tyrkir komust svo að fjölskyldutengingunni með því að nota DNA-sýni frá Baghdadi sem írösk stjórnvöld létu þeim í té.

„Við uppgötvuðum auðkenni hennar frekar snögglega. Á þeim tímapunkti bauðst hún til þess að veita okkur mikið af upplýsingum um Baghdadi og innri starfsemi ISIS,“ segir embættismaðurinn tyrkneski í samtali við AFP-fréttastofuna.

Hann segir upplýsingarnar hafa nýst Tyrkjum til að staðfesta ýmislegt sem þeir töldu sig þegar vita. Einnig hefði eiginkonan flutt þeim nýjar upplýsingar, sem hefðu leitt til fjölda handtaka fólks nákomins Baghdadi.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti greindi fyrst frá því að Tyrkir hefðu ekkju Baghdadi í haldi í gærdag, er hann ræddi við nemendur í höfuðborginni Ankara. Þar gagnrýndi hann Bandaríkjastjórn fyrir að hreykja sér um of af því að hafa fellt Baghdadi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert