Fær þak yfir höfuðið í nótt

Lögreglan rýmdi tjaldbúðir í París í morgun.
Lögreglan rýmdi tjaldbúðir í París í morgun. AFP

Franska lögreglan rýmdi tvennar tjaldbúðir hælisleitenda í París í morgun, degi eftir að ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sem miða að því að „ná tökum að nýju“ á málefnum innflytjenda.

Um 600 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í morgun og fylgdu þeir hælisleitendunum (migrants) úr tjaldbúðunum í rútur sem fluttu þá í móttökumiðstöðvar fyrir flóttafólk. Aðgerðirnar hófust í úrhellisrigningu klukkan 6 að staðartíma. 

Treyja merkt David Beckham hangir á tré í tjaldbúðum flóttafólks.
Treyja merkt David Beckham hangir á tré í tjaldbúðum flóttafólks. AFP

Tjaldbúðirnar eru skammt frá Porte de la Chapelle, við hringinn (périphérique) sem umlykur miðborg Parísar. Talið er að á milli 600 og 1.200 manns hafi haldið til í tjaldbúðunum, Margir þeirra, meðal annars fjölskyldufólk, eru frá Afganistan og ríkjum sunnan Sahara. 

Awa, 32 ára gömul kona frá Fílabeinsströndinni, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að hún hafi sofið í tjaldi við Porte de la Chapelle frá því hún kom til Frakklands fyrir ári.

„Það rignir, það er kalt. Ég veit ekki hvert ég fer en ég er fegin því að fara því þá hef ég þak yfir höfuðið í nótt,“ segir hún þar sem hún stendur í biðröð eftir rútu. Farangurinn er aðeins lítill bakpoki með aleigunni. 

Aðstæður í tjaldbúðunum voru ömurlegar í einu orði sagt.
Aðstæður í tjaldbúðunum voru ömurlegar í einu orði sagt. AFP

„Ég get ekki heimilað jafn hættulegar aðstæður og þessar eru [...] þetta getur ekki haldið svona áfram,“ sagði lögreglustjóri Parísar, Didier Lallement, er hann ræddi við fréttamenn á staðnum í morgun. 

Hann segir að aðgerðirnar, sem er eru meðal þeirra viðamestu síðan tjaldbúðir hófu að rísa reglulega árið 2015 í París, séu hluti af aðgerðum sem stjórnvöld boðuðu. 

Ríkisstjórn Emmanuel Macron Frakklandsforseta hefur heitið því að grípa til aðgerða gegn ólöglegum innflytjendum og er talið að sé viðleitni stjórnarinnar til að tryggja að atkvæðin fari ekki til hægriflokka sem hafa boðað harðari stefnu í málefnum innflytjenda. Sveitarstjórnarkosningar fara fram í Frakklandi á næsta ári. 

AFP

„Við viljum ná aftur tökum á stefnu okkar í málefnum flóttafólks,“ sagði Edouard Philippe forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær er kynntar voru aðgerðir til þess að „styrkja fullveldi“ Frakklands. 

Christophe Castaner innanríkisráðherra varaði við rýmingu tjaldbúðanna í gær en alls er talið að um þrjú þúsund flóttamenn búi í tjöldum í norðausturhluta Parísar. Hann sagði að búðirnar yrðu rýmdar fyrir árslok og að 16 þúsund pláss verði fyrir flóttafólk í þremur nýjum flóttamannamiðstöðvum í Frakklandi. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að fleiri tjaldbúðir rísi en þær eru mjög gagnrýndar af heimafólki, ekki síst vegna óþrifnaðar og smitsjúkdómahættu. 

Frétt Le Parisien

Borgarstjórinn í París, Anne Hidalgo, var viðstödd aðgerðirnar. Hún segir að embættismenn borgarinnar hafi fundað um málið í innanríkisráðuneytinu nýverið og hún segir að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða. Ekki sé tryggt að Frakkland geti tekið við öllum þeim fjölda fólks sem þangað leitar með þeirri virðingu sem sýna þurfi. Götur borgarinnar séu ekki staður til að búa á og þar sé fólk sett í hættu. Hún segir að það gildi um flóttafólk sem aðra og nauðsynlegt sé að reyna að koma öllum í húsaskjól. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert