Myrtu 16 samstarfsfélaga og flúðu suður

Mennirnir voru sendir aftur til Norður-Kóreu.
Mennirnir voru sendir aftur til Norður-Kóreu. AFP

Tveir norðurkóreskir sjómenn sem viðurkenndu að hafa myrt 16 samstarfsfélaga sína áður en þeir flúðu yfir landamærin til suðurs hafa verið sendir aftur til heimalandsins.

Fram kemur í frétt BBC að mennirnir hafi siglt skipi sínu í suðurkóreska landhelgi á laugardag. Þar voru mennirnir handsamir og færðir til yfirheyrslu.

Yfirvöld í Suður-Kóreu segjast yfirleitt veita flóttamönnum úr norðrinu hæli en í þessu tilfelli hafi mennirnir verið ógn við þjóðaröryggi.

Því hafi verið komið fram við mennina sem glæpamenn en ekki flóttamenn og þeir sendir til baka.

Mennirnir viðurkenndu að hafa myrt skipstjórann vegna ómannúðlegrar meðferðar hans. Síðan hafi þeir haldið áfram og myrt þá sem voru ósáttir við morðið á skipstjóranum.

Mennirnir voru sendir aftur til Norður-Kóreu við landamærastöðina í Panmunjom í gærkvöldi.

mbl.is