Tugir skjaldbaka í útrýmingarhættu hverfa úr dýragarði

Cuora flavomarginata skjaldbakan. 49 skjaldbökur þessarar tegundar hurfu úr dýragarðinum.
Cuora flavomarginata skjaldbakan. 49 skjaldbökur þessarar tegundar hurfu úr dýragarðinum. AFP

Rúmlega 60 skjaldbökur í útrýmingarhættu eru horfnar úr dýragarði í suðurhluta Japans og segja yfirvöld grun um að þeim hafi verið rænt.

„Við gefum þeim að borða tvisvar í viku og dýrahirðirinn tók eftir að þeim hafði greinilega fækkað,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Kozue Ohgimi einum yfirmanna Okinawa dýragarðsins.

Við skoðun kom svo í ljós að búið var að losa á nokkrum stöðum festingar á hluta af netinu sem umkringir heimkynni skjaldbakanna. „Netin voru nógu laus til að fullorðinn einstaklingur gæti laumast inn á svæðið,“ segir Ohgimi.

Óttast yfirmenn dýragarðsins nú að skjalbökunum kunni að hafa verið stolið með það íhuga að selja þær á svörtum markaði sem framandi gæludýr. „Þær seljast fyrir hátt verð,“ bætti Ohgimi við.

15 skjaldbökur af tegundinni Geoemyda japonica hurfu eru meðal þeirra …
15 skjaldbökur af tegundinni Geoemyda japonica hurfu eru meðal þeirra sem hurfu úr dýragarðinum. Báðar tegundirnar eru á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. AFP

Búið er að tilkynna um hvarf skjaldbakanna til lögreglu sem er nú með málið til rannsóknar.

Skjaldbökunar sem um ræðir eru 64 talsins og eru af tveimur tegundum, Cuora flavomarginata og Geoemyda japonica og eru þær stærstu ekki nema 20 sm langar. Báðar eru á lista yfir dýr í útrýmingarhætti og teljast til „náttúrulífsgersema“ Japan, sem felur í sér bann við kaupum og sölu á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert