Úkraínukrísan sett á ís vegna áforma um Grænlandskaup

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Ráðherrum tókst ekki að koma á fundi …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Ráðherrum tókst ekki að koma á fundi með honum fyrr en í september vegna Úkraínudeilunnar. AFP

Embættismenn bæði bandaríska utanríkis- og varnarmálaráðuneytisins vildu koma aftur á fjárstuðningi við Úkraínu, en Grænlandsmálið tók allan tíma aðstoðarmanna Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta er meðal þess sem kemur fram í einum þeirra vitnisburða sem fram hafa komið í yfirheyrslum Bandaríkjaþings vegna rannsóknar á meintum embættisglöpum forsetans.

Guardian greinir frá og segir að embættismenn ráðuneytanna hafi farið á fullt í að koma hernaðaraðstoð við Úkraínu á að nýju eftir að Hvíta húsið frysti greiðslurnar. Þeim tókst hins vegar ekki að fá fund með Trump, að hluta til af því að aðstoðarmenn Trump voru of önnum kafnir við að kanna möguleikann á hvort raungera mætti áform forsetans um að kaupa Grænland.

Bill Taylor, settur sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, hefur greint þinginu frá því að sú ákvörðun Trumps að frysta greiðslurnar hafi, vegna hernaðarafskipta Rússa í austurhluta Úkraínu, leitt til fjölda funda með ráðherrum um það hvernig koma mætti greiðslunum á að nýju.

Tók mikinn tíma í þjóðaröryggisráðinu

Taylor bar vitni fyrir nefndinni 22. október, en þingið birti ekki endurrit af vitnisburði hans fyrr en í gær. Sagði Taylor ráðherra og embættismenn á öllum stigum hafa verið sammála um að koma þyrfti hernaðaraðstoð á að nýju og að varnarmálaráðherra, utanríkisráðherra og forstjóri CIA yrðu að funda með Trump hið fyrsta til að fá hann til að afturkalla þessa ákvörðun sína.

Ekki var hins vegar hægt að fá fund með forsetanum fyrr en í september og sagði Taylor ástæðuna að hluta vera þá að ráðherrar voru í vinnuferðum erlendis. „Mig minnir að þetta hafi verið á þeim tíma sem Grænlandsmálið var í gangi, um kaup á Grænlandi, sem tók mikla orku í þjóðaröryggisráðinu [NSC],“ sagði Taylor.

Það var svo 20. ágúst sem Trump  hætti við fyrirhugaða Danmerkurheimsókn sína á grundvelli þess að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefði „engan áhuga á að ræða sölu Grænlands“. Hafði Frederiksen áður sagt tillögu Trump um að Bandaríkin keyptu Grænland „fáránlega umræðu“.

Tveimur dögum áður hafði Trump sagst vera að skoða málið, en að hugmyndin væri ekki forgangsmál. „Staðsetningarlega séð er það áhugavert og við hefðum áhuga, en við þurfum að ræða svolítið við þau [dönsk stjórnvöld],“ sagði forsetinn.

Áttaði sig á þrýstingnum vegna Biden

Ummæli Taylors gefa hins vegar í skyn að hugmyndin um Grænlandskaupin hafi krafist umtalsverðrar vinnu hjá þjóðaröryggisráðinu á kostnað annarra mála sem aðrir í stjórn Trump töldu forgangsmál varðandi þjóðaröryggi.

Sagði Taylor í vitnisburði sínum að sér hafi að lokum orðið ljóst  í gegnum Rudy Guiliani, einkalögfræðing Trump, að forsetinn hefði fryst greiðslur til Úkraínu til að þrýsta á þarlend stjórnvöld að taka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, til rannsóknar.

Adam Schiff, formaður njósnanefndar, sem leiddi yfirheyrsluna yfir Taylor sagði vafstur Trump með Grænland áhyggjuefni af fjölda ólíkra ástæðna. Þessu samsinnti Taylor, en sagði það þó vera „allt annað mál“.

mbl.is