Stórsigur Boris Johnson í kortunum

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins. AFP

Miðað við síðustu skoðanakannanir stefnir í stórsigur Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Íhaldsflokksins, í þingkosningunum 12. desember. Þetta kemur fram á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Vísað er í fréttinni í vefsíðuna Electoral Calculus sem spáir fyrir um niðurstöður kosninga byggt á reiknilíkani. Miðað við útreikninga vefsíðunnar á gögnum úr skoðanakönnunum síðustu tveggja vikna stefnir að óbreyttu í að Íhaldsflokkurinn fái 373 þingmenn á breska þinginu í kosningunum en þar sitja í heildina 650 þingmenn.

Fleiri þingmenn með færri atkvæðum

Verkamannaflokkurinn fær 182 þingmenn miðað við rannsóknina, Frjálslyndir demókratar 25 og Skoski þjóðarflokkurinn 48. Brexitflokkurinn fengi engan mann kjörinn. Miðað er við að fylgi Íhaldsflokksins verði rúm 38%, Verkamannaflokksins rúmlega 27%, Frjálslyndra demókrata tæp 16% og fylgi Brexitflokksins verði rúm 10%.

AFP

Fram kemur í fréttinni að rannsóknin bendi til þess að Johnson gæti unnið afgerandi meirihluta þingsæta með mun minna fylgi en forveri hans, Theresa May, í kosningunum 2017 þar sem fylgið dreifist meira á milli flokkanna en þá.

Hefur Johnson tekist að snúa á Farage?

Fylgi sem Verkamannaflokkurinn og Íhaldsflokkurinn hafa tapað hefur farið yfir á Frjálslynda demókrata og Brexitflokkinn. Fyrri flokkurinn hefur aukið mjög fylgi sitt frá síðustu kosningum en Brexitflokkurinn fær hvergi mann kjörinn.

Þannig segir í fréttinni að svo virðist sem Johnson hafi tekist að snúa á Nigel Farage, leiðtoga Brexitflokksins en rætt hefur verið um að flokkurinn gæti orðið Íhaldsflokknum skeinuhættur og jafnvel kostað hann mögulegan þingmeirihluta.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert