Tíu unglingar voru í vörubílnum

Tíu unglingar voru á meðal Víetnamanna þrjátíu og níu sem …
Tíu unglingar voru á meðal Víetnamanna þrjátíu og níu sem fundust látin um borð í vörubifreið í Essex í Bretlandi 23. október. AFP

Tíu unglingar voru á meðal Víetnamanna þrjátíu og níu sem fundust látin um borð í vörubifreið í Essex í Bretlandi 23. október. Búið er að bera kennsl á öll líkin og voru nöfn þeirra látnu birt af lögreglu í dag.

Þrjátíu og einn karl og átta konur voru um borð í vörubílnum, þau yngstu um borð voru 15 ára en sá elsti 44 ára. DNA-sýni frá fjölskyldum fólksins voru notuð til þess að bera kennsl á marga þeirra sem fundust í bílnum. Fram hefur komið að margar fjölskyldur í Víetnam séu nú stórskuldugar, þar sem þær skuldi smyglurum stórfé fyrir að senda börn sín í þessa för.

Enn er enn búið að opinbera hvaða leið fólkið fór frá Víetnam og til belgísku borgarinnar Zeebrugge, þaðan sem skip flutti þau til Bretlands.

Samkvæmt frétt Sky News af þessu máli hafa fjórir menn frá Bretlandi og Írlandi verið handteknir eða eftirlýstir vegna málsins. Ökumaður vörubílsins, Maurice Robinson, hefur verið ákærður fyrir manndráp í þrjátíu og níu liðum. Hann kemur fyrir dómara í næstu viku.

Norður-írskir bræður eftirlýstir

Christopher Hughes (t.v.) og bróðir hans Ronan Hughes eru eftirlýstir …
Christopher Hughes (t.v.) og bróðir hans Ronan Hughes eru eftirlýstir vegna málsins. AFP

Þá vinna bresk stjórnvöld að því að fá Eamon Harrison, tuttugu og tveggja ára gamlan Norður-Íra, framseldan frá Írlandi til Bretlands vegna málsins.

Tveir bræður frá Norður-Írlandi, Ronan og Cristopher Hughes, eru einnig eftirlýstir, grunaðir um manndráp og mansal.

Nokkrir til viðbótar hafa svo verið handteknir vegna málsins í Víetnam, samkvæmt frétt Sky News.

mbl.is