Yfir 4 þúsund Bretar fá sænskt ríkisfang

Sænski fáninn.
Sænski fáninn. Ljósmynd/Norden.org
Yfir fjögur þúsund Bretar hafa fengið sænskan ríkisborgararétt það sem af er ári. Þar af 1.200 í síðasta mánuði.
Samkvæmt frétt The Local hafa sænsk yfirvöld alls veitt 4.120 Bretum ríkisborgararétt í ár og er þetta nýtt met. Metið var sett strax í september þegar fjöldinn var 2.406. Þessi mikli áhugi Breta á að fá sænskan ríkisborgararétt er rakinn til ákvörðunar Breta um að yfirgefa Evrópusambandið.

Það sem af er ári hafa 24.740 Sýrlendingar fengið sænskan ríkisborgararétt en Bretar eru í öðru sæti listans yfir þá útlendinga sem hafa sótt um sænskan ríkisborgararétt í ár. Sómalar koma næst eða rúmlega þrjú þúsund og Afganar eru alls tæplega 2.300 talsins. 

mbl.is