Beinagrindin af frönskum hershöfðingja

Napóleon Bónaparte Frakkakeisari hörfar frá Rússlandi eftir misheppnaða innrás í …
Napóleon Bónaparte Frakkakeisari hörfar frá Rússlandi eftir misheppnaða innrás í landið. Ljósmynd/Wikipedia.org

Rúmum 200 árum eftir að hann lést af sárum sínum í Rússlandi hefur formlega verið staðfest að beinagrind sem fannst fyrr á þessu ári sé af Charles Etienne Gudin, einum af hershöfðingjum franska keisarans Napóleons Bónaparte.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að fornleifafræðingar hafi fundið beinagrindina í rússnesku borginni Smolensk. Kennsl voru borin á hana með því að bera erfðasýni úr henni við sýni úr afkomendum Gudins.

Hershöfðinginn lést 44 ára gamall 22. ágúst 1812 eftir að hafa orðið fyrir fallbyssukúlu í misheppnaðri innrás Napóleons í Rússland. Annar fótleggur hans var fjarlægður en drep komst í sárið og lést hann í kjölfarið af sárum sínum.

Keisarinn þekkti Gudin vel segir í fréttinni en nafn hershöfðingjans er til að mynda ritað á Sigurbogann í París, höfuðborg Frakklands, og brjóstmynd er að finna af honum í höllinni í Versölum. Þá ber gata í höfuðborginni nafn hans.

Hjarta Gudins var fjarlægt eftir að hann lést og var það síðan flutt til Frakklands og grafið í París. Afkomendur hans hafa kallað eftir því að beinagrindin verði flutt til Frakklands og líkamsleifar hans grafnar þar við viðhöfn.

mbl.is