Fyrrum forseti Brasilíu laus úr fangelsi

Lula naut sín býsna vel ásamt fjölda fylgismanna sinna.
Lula naut sín býsna vel ásamt fjölda fylgismanna sinna. AFP

Luiz Inácio Lula da Silva, fyrrum forseta Brasilíu og leiðtoga vinstrimanna, var sleppt úr fangelsi í gærkvöldi.

Hæstirétt­ur í Bras­il­íu ákvað síðastliðinn fimmtudag að snúa við dómi sem snýr að fang­els­un af­brota­manna. Ákvörðunin lýtur að því að dæmdir af­brota­menn skuli ekki vera fang­elsaðir fyrr en eft­ir að þeir hafi reynt að áfrýja sín­um dóm­um. 

Lula hafði verið dæmdur til tólf ára fangelsisvistar vegna spillingarmáls. Hann hefur neitað öllum ásökunum staðfastlega og sagt ásakanirnar komnar frá pólitískum andstæðingum hans. Lula hafði setið inni í 580 daga þegar honum var sleppt. 

Málið hefur vakið mikla kæti meðal vinstrimanna en fylgismenn Jair Bolsonaro, núverandi forseta Brasilíu, eru æfareiðir vegna þess. 

„Þeir fangelsuðu ekki manneskju. Þeir reyndu að drepa hugmynd.

Lula ávarpaði þúsundir himinlifandi stuðningsmanna sinna í dag. 

„Á þessum 580 dögum undirbjó ég mig andlega, undirbjó mig þannig að ég væri ekki fullur af hatri og hefndarþorsta,“ sagði Lula.

Forsetinn fyrrverandi lifði sig inn í ræðuhöldin eins og sjá …
Forsetinn fyrrverandi lifði sig inn í ræðuhöldin eins og sjá má. AFP

„Hvers vegna undirbjó ég mig? Vegna þess að ég vildi sanna að þrátt fyrir að þeir hefðu stungið mér í steininn þá svaf ég með miklu betri samvisku en þeir,“ bætti Lula við. 

Þegar Lula kom út fyrir dyr fangelsisins í gær sagði hann:

„Þeir fangelsuðu ekki manneskju. Þeir reyndu að drepa hugmynd. Brasilía batnaði ekki heldur versnaði. Fólkið er hungrað, það er atvinnulaust, fólk vinnur ekki formlega vinnu, það finnur fyrir Uber og sendist með pítsur.“

Lula hefur áfrýjað dómnum sem hann hlaut. Dómurinn er tengdur meintum kaupum hans á strandaríbúð og er Lula einnig flæktur í fleiri mál. Ef Lula tapar málinu gæti hann aftur verið settur á bak við lás og slá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert