Hindúar fá svæði sem múslimar vildu

Hindúar hafa fagnað á götum úti eftir að dómurinn var …
Hindúar hafa fagnað á götum úti eftir að dómurinn var kveðinn upp, þvert á tilmæli yfirvalda. AFP

Hæstiréttur Indlands úrskurðaði í gær að umdeilt svæði í borginni Ayodhya í norðurhluta Indlands verði gefið hindúum sem vilja byggja musteri þar. Hindúar og múslimar hafa í áratugi deilt um eignarhald landsvæðisins. Í dómi hæstaréttar segir að múslimar muni fá aðra lóð til að reisa mosku á. 

Margir hindúar telja að staðurinn sé fæðingarstaður guðsins Ram, sem er einn af þeirra virtustu guðum. Aftur á móti segja múslimar að þeir hafi öldum saman stundað tilbeiðslu á svæðinu. BBC greinir frá þessu. 

Á miðju svæðinu er moskan Babri sem byggð var á sextándu öld. Hún var rifin niður af múg hindúa árið 1992. Upp úr því spruttu óeirðir sem drógu nærri 2.000 manns til dauða. 

Í dómnum, sem var einróma samþykktur af öllum dómurum hæstaréttar, segir að skýrsla Fornleifastofnunar Indlands hafi fært fram sönnunargögn um að leifar byggingar sem var ekki íslömsk hefði verið undir Babri moskunni sem rifin var niður. 

Þau sönnunargögn leiddu til niðurstöðu dómsins og fá hindúar því að reisa musteri til dýrðar guðinum Ram. Samt sem áður sagði í dómnum að niðurrif Babri moskunnar hafi verið í andstöðu við landslög. 

Hundruð í haldi í forvarnarskyni

Yfirvöld í Indlandi hafa varað við því að dómnum verði fagnað en hindúar hafa samt sem áður gert það og sungu hindúar „hyllið guðinn Ram“ fyrir utan dómssalinn við dómsuppkvaðningu. 

Múslimar eru ósáttir með dóminn og ætlar fulltrúi þeirra að skoða hvort ástæða sé til þess að málið verði skoðað frekar. Þó er ekki útlit fyrir að honum verði áfrýjað. 

Engar óeirðir hafa hingað til sprottið upp vegna dómsins en hundruð manna voru í haldi lögreglu í gær vegna ótta yfirvalda við að þeir myndu stofna til óeirða. Þúsundir lögreglumanna eru að störfum á svæðinu. 

Áður en dómurinn var kveðinn upp gaf ríkisstjórn Indlands út fyrirskipun um að banna birtingu mynda af eyðileggingu Babri moskunnar.

mbl.is