Lausn á aldagömlum deilum trúarhópa

„Margir Indverjar hugsa nú að eftir þennan ítarlega dóm hæstaréttar …
„Margir Indverjar hugsa nú að eftir þennan ítarlega dóm hæstaréttar sé hægt að halda áfram og einblína meira á loftslagsmál og önnur mikilvæg mál,“ segir T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi. Ljósmynd/Gunnar Geir Vigfússon

„Langflestir hafa tekið dómnum fagnandi því hann hefur í raun komið á sáttum vegna málsins. Dómurinn er mjög yfirvegaður og sanngjarn,“ segir T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi í samtali við mbl.is. 

Changsan vill að það komi skýrt fram að dómur sem féll í Indlandi í gær sé til þess fallinn að ná sáttum á milli múslima og hindúa, ekki sé um sigur hindúa og ósigur múslima að ræða. Sömuleiðis segir Changsan að dómurinn sé ekki fordæmisgefandi.

Hæstirétt­ur Ind­lands úr­sk­urðaði í gær að um­deilt svæði í borg­inni Ayod­hya í norður­hluta Ind­lands verði gefið hindú­um sem vilja byggja musteri þar. Hind­ú­ar og múslim­ar hafa lengi deilt um eign­ar­hald landsvæðis­ins. Í dómi hæsta­rétt­ar seg­ir að múslim­ar muni fá aðra lóð til að reisa mosku á. 

„Málið varðar umdeildan stað þar sem moska stóð áður. Hún var rifin niður af öfgamönnum í hópi hindúa árið 1992. Í kjölfarið urðu miklar óeirðir og margir létu lífið. Síðan þá hafa verið miklar deilur um svæðið,“ segir Changsan.

Fór inn í dómskerfið fyrir 100 árum

Hann fagnar því að endanleg niðurstaða sé komin í málið en það hefur verið mikið til umræðu í Indlandi á síðustu áratugum.

„Fyrir hundrað árum síðan, þegar Indland var enn undir stjórn Breta var málið sent til dómsstóla. Eftir að Indland öðlaðist sjálfstæði sitt árið 1947 var málið tekið fyrir hjá svæðisdómi, sem er lágt dómsstig. Síðan þá hefur málið velkst um í dómskerfinu en nú er endanleg niðurstaða komin í málið.“

Changsan ítrekar að dómurinn sé ekki fordæmisgefandi. 

„Það eru nokkur svæði í Indlandi þar sem svipaðar deilur hafa átt sér stað, þar sem talið er að áður hafi verið musteri en nú er moska. Það er ekki hægt að nota þennan dóm til fyrirmyndar í þeim málum vegna þess að árið 1991 voru samþykkt lög í Indlandi sem sögðu að eftir að við fengum sjálfstæði árið 1947 mætti ekki breyta trúarlegu mannvirki í eitthvað annað eða breyta tilgangi þess með neinum hætti. Þetta mál hafði þegar farið fyrir dómstóla áður en lögin voru sett og því gilda lögin ekki um það.“

Hindúar fögnuðu dómnum á götum úti í dag, þvert á …
Hindúar fögnuðu dómnum á götum úti í dag, þvert á tilmæli stjórnvalda. AFP

Loftslagsmál geti nú tekið meira pláss 

Aðspurður segir Changsan að dómurinn geti haft jákvæð áhrif á samskipti múslima og hindúa í Indlandi. 

„Margir Indverjar hugsa nú að eftir þennan ítarlega dóm hæstaréttar sé hægt að halda áfram og einblína meira á loftslagsmál og önnur mikilvæg mál. Allir Indverjar vilja sjá frið og samlyndi í landinu og við viljum ekki að fólk fagni þessu sem einhvers konar sigri heldur fremur einhvers konar sátt sem getur komið á meiri friði og samlyndi á meðal Indverja. Trúfrelsi er í Indlandi og er það skýrt tekið fram í stjórnarskránni okkar.“

Um dóminn sjálfan segir Changsan:

„Dómurinn snerist um eignarhald landsins og var hann byggður á lögum, staðreyndum og sönnunargögnum. Fornleifarannsókn leiddi í ljós að á svæðinu hafi áður verið annars konar mannvirki, áður en moskan var reist. Dómurinn segir þó ekki að á svæðinu hafi verið musteri hindúa eða neitt slíkt. Það sem er einnig mikilvægt í þessum dómi er að þar er tekið fram að eyðilegging moskunnar á sínum tíma hafi verið ólögleg og því hefur verið ákveðið að múslimar fái land til að reisa mosku á. Yfirvöld hafa nú þegar tekið frá landsvæði í það.“

mbl.is