Mannskæðir gróðureldar í Ástralíu

Slökkvilið reyna nú að ná tökum á gróðureldum í Ástralíu.
Slökkvilið reyna nú að ná tökum á gróðureldum í Ástralíu. AFP

Þrír eru látnir og þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín vegna skæðra gróðureldra í austanverðri Ástralíu. Búist er við því að tala látinna eigi eftir að hækka, en það hefur reynst slökkviliði erfitt að nálgast afskekkt samfélög.

Nokkurra er saknað og 30 eru slasaðir, flestir slökkviliðsmenn. 

AFP

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu hefur lýst því yfir að ástralski herinn verði kallaður út ef þörf er á til að aðstoða þá 1.300 slökkviliðsmenn sem reyna nú að slökkva 100 aðskilda gróðurelda. Þá hafa hundruð borgara boðið fram aðstoð sína. 

„Hugsanir mínar í dag eru með þeim sem hafa misst lífið og fjölskyldur sínar,“ sagði Morrison við fjölmiðla í dag. 

Svo virðist sem alvarlegri tilfellum skógarelda hafi fækkað nokkuð frá því í gær. Á 1.000 kílómetra svæði hafa skólar brunnið og að minnsta kosti 150 heimili eyðilagst. Þá hafa yfirvöld þurft að rýma fangelsi og öldrunarheimili á ákveðnum svæðum. 

Fjölmörg heimili hafi orðið eldinum að bráð.
Fjölmörg heimili hafi orðið eldinum að bráð. AFP
mbl.is