Missti af falli múrsins — þurfti að skrifa ritgerð

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands greindi frá því í kvöldfréttum …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands greindi frá því í kvöldfréttum RÚV að hann hefði misst af falli Berlínarsmúrsins sökum eigin samviskusemi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands missti af falli Berlínarmúrsíns á þessum degi fyrir 30 árum, þar sem hann var of samviskusamur nemandi. Frá þessu greindi Guðni í frétt Ríkisútvarpsins um þennan heimssögulega viðburð í kvöld.

Guðni var á þessum tíma 21 árs og í sagnfræði- og stjórnmálafræðinámi við Warwick-háskóla í Bretlandi.

„Svo gerðist það þarna í byrjun nóvember að félagi minn í náminu sagði: „Nú er allt að gerast, nú er fólkið að flýja frá Austur-Þýskalandi um Tékkóslóvakíu, sem þá var, og vestur yfir. Við skulum skella okkur yfir, Guðni, við skulum fara til Berlínar og anda þessu andrúmslofti að okkur, verða vitni að sögunni í mótun.““

Það fór þó ekki svo að Guðni færi með.

„Ég hugsaði mig aðeins um, og komst svo að því að ég hefði bara ekki tök á að fara, því ég yrði að skila ritgerð í samanburðarfræðum kommúnisma og þessi samviskusemi olli því að ég missti af þvi að verða vitni að falli Berlínarmúrsins,“ sagði forsetinn.

Blaðamaður mbl.is, bús. í Berlín, tók íslenskt Berlínarfólk tali í tilefni af þessum tímamótum og fékk þau til að rifja upp þessa stóru stund. Þá umfjöllun má lesa með því að fylgja hlekknum hér að ofan.

mbl.is