Ofurríkum fjölgar um tæp 40% á fimm árum

Hinn bandaríski Bill Gates er á meðal rúmlega 2.000 milljarðamæringa …
Hinn bandaríski Bill Gates er á meðal rúmlega 2.000 milljarðamæringa í heiminum. AFP

Milljarðamæringum, í bandaríkjadölum talið, heldur áfram að fjölga á heimsvísu og eru þeir 38,9% fleiri en fyrir fimm árum samkvæmt skýrslu UBS um milljarðamæringa. 

Milljarðamæringar eru í dag 2.101 talsins á heimsvísu og hefur þeim fjölgað um 589 einstaklinga á fimm árum, frá 2013 til 2018. Á þessu sama tímabili jukust auðæfi þessa hóps um þriðjung (34.5%) og eru nú samtals 8,5 billjónir (milljón milljónir) bandaríkjadala. 

Í Bandaríkjunum búa 749 milljarðamæringar og eru auðæfi þeirra samtals 3,6 billjónir dollara. Milljarðamæringar eru flestir á Kyrrahafs- og Asíusvæðinu, samtals 754 og eru auðæfi þeirra 2,5 billjónir dollara. 43% milljarðamæringa á Kyrrahafs- og Asíusvæðinu koma frá Kína, 14% frá Indlandi og 4% frá Japan. 

Milljarðamæringum í Evrópu, Afríku og á Austurlöndum nær fækkaði um 5% í fyrra og eru þeir nú 598. Samanlögð auðæfi þeirra eru 2,4 billjónir dollara. 

233 milljarðamæringar eru konur og hefur þeim fjölgað um 46% frá árinu 2013 þegar þær voru 160. Fjölgun kvenkyns milljarðamæringa hefur verið mest í Asíu.

mbl.is