Og ekkert var eins

„Það hafðist! Múrinn er opinn,“ stendur skýrt á forsíðu BILD. …
„Það hafðist! Múrinn er opinn,“ stendur skýrt á forsíðu BILD. Glaður Þjóðverji boðar fagnaðarerindið í grenndinni við Brandenborgarhliðið. Og fagnaðarerindi var það, „sól“ reis í austri, samkvæmt leiðarahöfundi Morgunblaðsins. 30 árum síðar eru ekki allir á eitt sáttir um hvernig var farið að við sameiningu tveggja harla ólíkra ríkja. AFP

Óánægja með kommúnistastjórnina var við suðupunkt og dagarnir á undan höfðu verið erilsamir í hæsta máta, sem ef til vill leiddi til þess að hann ruglaðist aðeins, karlinn. Og sjaldan var ruglingur eins afdrifaríkur: Heimurinn varð aldrei samur. 9. nóvember 1989, fyrir 30 árum í dag, var verið að kynna nýja reglugerð um ótakmarkað ferðafrelsi Austur-Þjóðverja, reglugerð sem átti þó ekki að taka gildi fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir. Dagsetning gildistökunnar var eitthvað óljós þeim sem tók til máls á blaðamannafundinum, Günter Schabowski, þannig að þegar hann var spurður hvenær nákvæmlega þetta tæki gildi þá sagði hann bara: „Nú, samkvæmt mínum upplýsingum tekur þetta gildi bara strax, tafarlaust.“ 

Günter Schabowski á blaðamannafundinum fræga. Schabowski hefði að líkindum ekki …
Günter Schabowski á blaðamannafundinum fræga. Schabowski hefði að líkindum ekki komist í sögubækurnar, hefði ekki verið fyrir örlagaríkan misskilning hans á minnisblaði sem honum var fengið fyrir fundinn. „Strax. Tafarlaust,“ sagði Schabowski, en ferðafrelsið átti ekki að vera gefið fyrr en daginn eftir. AFP

Restin er mannkynssaga. Múrinn féll sama kvöld og Schabowski talaði af sér, og dagsetningarinnar 9. nóvember 1989 er minnst sem endaloka kalda stríðsins. Mannkynssaga er þó hvorki einhlít né endanleg og ófáir lausir endar sem urðu eftir við sameiningu Þýskalands ári síðar verða að líkindum aldrei hnýttir. Það voru og eru skiptar skoðanir um ágæti þess að sameina þessi tvö lönd, Vestur- og Austur-Þýskaland, sem voru í áranna rás orðin svo ólík að á milli þeirra var himinn og haf, en ekki bara 155 kílómetra múr. 

„Sól rís í austri“ var fyrirsögn leiðara Morgunblaðsins laugardaginn eftir fall múrsins og þó að ekki væri ljóst þessa fyrstu daga hvaða ljósi þessi sól myndi varpa á Þýskaland, var von margra að löndin yrðu sameinuð. Af varð og sólin varð sól kapítalismans, táknræn um sigur vesturs á austri. En þegar annar sigrar tapar yfirleitt hinn og eftir þeirri heimsmynd lifir fjöldi íbúa í Austur-Þýskalandi enn í dag, að vestrið hafi sigrað og austrið tapað, þó að að nafninu til séu þau eitt land. Og hvar er jarðvegur frjóari fyrir uppgang popúlískra stjórnmálaafla en þar sem fólk telur sig undirokað og hlunnfarið um lífsgæði, sem öðrum eru gefin? Í Austur-Þýskalandi voru að minnsta kosti allir með vinnu.

Ekki himinn, ekki haf, ekki múr. Þó að Vestur- og …
Ekki himinn, ekki haf, ekki múr. Þó að Vestur- og Austur-Þýskaland hafi ekki verið sameinuð á staðnum var ljóst að eftir að múrinn féll 9. nóvember 1989 hafði eitthvað meiri háttar breyst. Í dag heldur Berlín upp á 30 ára afmæli. AFP

Nú þegar þrjátíu ár eru liðin frá falli múrsins fara hátíðarhöld að einhverju leyti fram í skugga uppgangs popúlískra afla, einmitt sérstaklega í Austur-Þýskalandi: Í sambandslandskosningum í Brandenborg, Thüringen og Saxlandi nú í haust náði stjórnmálaflokkurinn AfD um fjórðungi atkvæða. Sá öfgahægriflokkur, sem rekur meðal annars harða stefnu gegn innflytjendum og íslam, þekkir kjósendur sína og hefur notast við slagorð eins og „klárum sameininguna“ (þ. vollende die Wende). Þar er sögð sama sagan: Vestur-Þýskaland vann, Austur-Þýskaland tapaði, og við ætlum að sækja það sem hrifsað var af okkur þegar löndin voru sameinuð.

Undir þessum kringumstæðum er 30 ára fögnuðurinn lágstemmdur í Berlín, auk þess sem lítil stemning er eftir sem áður fyrir áköfum hópfögnuði í Þýskalandi þegar þjóðleg efni eru annars vegar. Lykilorðið er „nachdenklich“ – íhugull, hugsi – þannig að fagnaðarlætin verða íhugul, ef það er ekki þversögn. Í stað íburðar og skrúðgangna er ótal uppákomum dreift um alla borgina. En margt smátt gerir eitt stórt.

Á Instagram-mynd hjá forseta Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, má sjá hinn nú 88 ára gamla Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, lesa þakkarbréf Steinmeiers til hans í tilefni dagsins.

View this post on Instagram

✉️ Beim Empfänger angekommen: Michail Gorbatschow hält den Brief in Händen, den Bundespräsident Steinmeier ihm aus Anlass des 30. Jahrestages des Mauerfalls geschrieben hat. Darin dankt der Bundespräsident ihm für seine Rolle bei der Friedlichen Revolution: „Wir haben nicht vergessen, und wir werden nicht vergessen, dass das Wunder der friedlichen Wiedervereinigung meines Landes nicht möglich gewesen wäre ohne die mutigen und menschlichen Entscheidungen, die Sie damals persönlich getroffen haben.“ Altbundespräsident Christian Wulff hatte ihm den Brief in Moskau überreicht. #Mauerfall30 #bundespräsident #steinmeier #gorbatschow #mauerfall #geschichte #deutschegeschichte +++ Letter delivered to the recipient: Mikhail Gorbachev holds in his hands the letter that Federal President Steinmeier wrote to him on the occasion of the 30th anniversary of the fall of the Berlin Wall. The Federal President thanked him for his role in the Peaceful Revolution: "We have not forgotten, and we will not forget that the miracle of the peaceful reunification of my country would not have been possible without the courageous and human decisions that you made at the time.” Former Federal President Christian Wulff had presented him with the letter in Moscow. #gorbachev #letter #fallofthewall #berlinwall #history #germanhistory

A post shared by Bundespräsident Steinmeier (@bundespraesident.steinmeier) on Nov 8, 2019 at 3:12am PST

Íslendingur fékk fyrsta molann úr múrnum, að sögn

Minnugir Íslendingar muna hvar þeir voru þegar eldgos hófst á Heimaey, þegar Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland og þegar Ísland vann England 2 — 1. En allir Þjóðverjar muna hvar þeir voru þegar Berlínarmúrinn féll. Í dag eru þrjátíu ár liðin frá þeim heimssögulega atburði. Það eru þó ekki aðeins Þjóðverjar sem muna hvar þeir voru þegar múrinn féll, heldur vitaskuld einnig Íslendingar. Á þessum tímamótum rifja þrír þeirra upp þessa örlagaríku nótt.

María Sólrún Sigurðardóttir kvikmyndargerðarkona, búsett meira og minna í Þýskalandi frá árinu 1985, bjó á stúdentagörðum í Vestur-Berlín þegar múrinn féll. Hún minnist þess að nokkrum mánuðum fyrir fallið hafði fjölskyldan hennar verið í heimsókn hjá henni og þau verið í göngutúr við múrinn. Fjölskyldan hennar, Íslendingar, furðaði sig á aðskilnaðinum og talaði um að nú hlyti að koma að sameiningu. „Ég sagði þeim að það væri alveg af og frá. Það væri nær að sameina Vestur-Þýskaland og Austurríki. Þessar þjóðir eru allt of, allt of ólíkar,“ sagði María þá við fjölskyldu sína. Hún reyndist ekki sannspá.

María Sólrún Sigurðardóttir kvikmyndargerðarkona við störf. Hún hefur búið í …
María Sólrún Sigurðardóttir kvikmyndargerðarkona við störf. Hún hefur búið í Þýskalandi nánast óslitið frá 9. áratugi síðustu aldar og var í miðjum hátíðarhöldunum fyrir þrjátíu árum þegar múrinn féll. Ljosmynd/Úr einkasafni

Kvöldið sem múrinn féll var María í bíó. Þegar hún kom heim síðla kvölds hringdi vinur hennar frá útlöndum og spurði tíðinda. Er ekki gaman? „Gaman? Hvað áttu við? Við vorum bara í bíó,“ svaraði María en var ekki lengi að drífa sig út á götu þegar hún skildi hvað var á seyði. „Við löbbuðum beinustu leið niður að Brandenborgarhliði og þar voru fyrstu að koma yfir frá Checkpoint Charlie. Við hittum þau fyrir. Þau voru svolítið feimin og við líka, við áttuðum okkur ekki alveg á þessu,“ rifjar María upp. „Eruð þið Austur-Þjóðverjar?“ spurði hún þessar mannverur. „Já,“ svöruðu þær. Þetta var þá satt.

María og vinir hennar vippuðu sér yfir múrinn og hófu að snerta Brandenborgarhliðið, sem hafði verið innlyksa í einskismannslandinu áratugum saman. „Verðirnir vissu ekki alveg hvað þeir áttu að gera. Ekki við heldur eiginlega. Þetta var einhvern veginn hættulegt, en samt ekki,“ segir María. Síðan tóku menn til við að brjóta niður múrinn. „Og einn þeirra var vinur minn og hann var með þeim allra fyrstu sem byrjuðu að höggva. Hann gaf mér fyrsta stykkið sem var hoggið úr múrnum. Ég fékk fyrsta stykkið!“ rifjar hún upp, en það er nú týnt, horfið. En minningar hverfa ekki og heldur ekki minningarnar um partíið, sem hófst þetta kvöld og stóð alla nótt. Og stendur jafnvel enn.

Hermenn drepa bæði og djamma

Hjónin Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarkona voru bæði við nám í Vestur-Berlín á þessum tíma, þó hvort í sínu lagi enn um sinn. Þau þekktust en það var ekki fyrr en eins og ári síðar sem þau felldu hugi saman, tveir Íslendingar í sameinaðri Berlín.

Ósk og Hjálmar í Berlín í sumar, 30 árum eftir …
Ósk og Hjálmar í Berlín í sumar, 30 árum eftir fall múrsins. Í Berlín eiga þau annað heimili. Ljósmynd/Magnús Karl Magnússon

Heimurinn var hægari, þetta voru aðrir tímar, nokkuð sem verður skýrt þegar Hjálmar rifjar upp kvöldið 9. nóvember. Hann var við ritgerðarskrif, þannig að einbeitingar var þörf. „Hugur minn var því við heimspekibækur og það var ekkert kveikt á útvarpinu þetta kvöldið. Það er því ekki fyrr en snemma næsta morgun sem ég hef spurn af þessu. Þegar ég heyrði þetta í útvarpinu, fór ég rakleiðis upp að Osloer Straße, þar sem múrinn var opnaður fyrst,“ rifjar Hjálmar upp.

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi var í háskólanámi í Berlín þegar múrinn …
Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi var í háskólanámi í Berlín þegar múrinn féll. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hjálmar lýsir því að þar hafi gríðarlegur fjöldi Austur-Þjóðverja streymt yfir við mikil gleðilæti. En fögnuðurinn var ekki óblendinn óvissu. „Þetta var að einhverju leyti eins og gluggi hefði opnast í stutta stund, en enginn vissi hvenær honum yrði lokað. Margir hugsuðu, já, svona verður þetta í dag, en á morgun veit enginn,“ segir Hjálmar. 

Austurþýskur hermaður gægist handan múrsins 1989, sem er þegar settur …
Austurþýskur hermaður gægist handan múrsins 1989, sem er þegar settur holum, enda bylting hafin. AFP

Það var ekki fyrr en tólf klukkustundum síðar eða svo, sem Hjálmar áttaði sig á að þó að ástandið kynni að vera tímabundið, lá eitthvað stærra og meira í loftinu. „Um kvöldið fór ég aftur á sama stað og fylgdist með fólkinu sem hafði komið um morgun halda heim að kvöldi. Það var ekki fyrr en þá, þegar ég fylgdist með þessari þjóð snúa aftur undir hálfu tungli á staðinn sem hún hafði svo oft þráð að yfirgefa, sem ég sá að það sem ég var að upplifa var heimssögulegur atburður,“ segir Hjálmar. Og heimssögulegir atburðir hafa hversdagslega skírskotun: Um áramótin 1989—'90 djammaði Hjálmar í Austur-Berlín, þar sem honum og vinum hans tókst að plata austurþýska hermenn í dans. Það voru sömu hermenn og hefðu fyrir nokkrum mánuðum verið vísir til þess að skjóta landa sína í bakið ef þeir reyndu að flýja yfir landamærin. 

Fjölskylduharmleikur kvika tímans

Þó að Ósk Vilhjálmsdóttir hafi rokið niður að múr þetta kvöld, og tekið þátt í hátíðarhöldum fram eftir nóttu, var það ef til vill ekki fyrr en daginn eftir sem hún fór inn í kviku þess andrúmslofts sem múrinn hafði skapað. „Okkur var boðið í afmæli kvöldið eftir hjá þýskri vinkonu okkar og ég og vinkona mín lögðum leið okkar þangað léttkenndar, á þetta sem átti að vera lítill vinkvennafögnuður. Þegar við mættum var annað uppi á teningnum,“ segir Ósk. „Við gengum inn í miðja geðshræringu, þar sem stór hópur af nánum ættingjum vinkonu minnar var kominn yfir frá austrinu,“ segir Ósk.

Ósk Vilhjálmsdóttir var í listnámi í Berlín þegar múrinn féll.
Ósk Vilhjálmsdóttir var í listnámi í Berlín þegar múrinn féll. Ljósmynd/Facebook

Það hafi verið fólk sem hafði verið skilið frá ættingjum sínum árum og áratugum saman en fékk nú aftur að fallast í faðma. Afmælið breyttist í langþráða og tilfinningaþrungna endurfundi. „Við komum þarna inn og allir eru grátandi. Þarna varð ég vitni að því hvernig raunveruleiki þessa fólks hafði verið öll þessi ár og það var virkilega magnþrungin stund,“ segir Ósk, sem hálfpartinn tárast við að rifja þetta upp. 

Fjölskyldur rifnar í sundur og kalda stríðið prímus mótor. Sá veruleiki blasti víðar við en bara í Berlín, þó að þar hafi hann líkamnast í ógnarstórum múr. Ósk segir að svoleiðis hafi því verið farið innan hennar eigin fjölskyldu, menn hafi skipt sér niður í ólík horn í fermingarveislum. Ósk gerði sjálf auðvitað ekki upp á milli og báðir afar hennar fengu brot úr Berlínarmúrnum í jólagjöf árið 1989, annar þeirra Framsóknarmaður, hinn öllu hallari undir hugsjónir alþýðulýðveldisins fallna Þýskalands. En hverju skiptir það? Kalda stríðið var á enda, hvort sem það þýddi að ný sól risi í austri eða að hinsta vonarsól um stéttlaust samfélag væri hnigin til viðar. Þetta eru sömu sólir, þær hrynja í dropatali, og fæða nýtt líf og nýja sorg.

Þessa mynd tók Ósk Vilhjálmsdóttir 17. júní 1989 af stórum …
Þessa mynd tók Ósk Vilhjálmsdóttir 17. júní 1989 af stórum hópi ungra íslenskra mæðra sem ýmist voru við nám eða störf í Berlín á þessum tíma. Frá vinstri eru Soffía Gunnarsdóttir, starfsmaður í norræna sendiráðinu í Berlín, Sesselja Auður Eyjólfsdóttir, aðstoðarskólastjóri Langholtsskóla, Hrönn Kristinsdóttir kvikmyndaframleiðandi, Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur, Jóna Fanney Friðriksdóttir framkvæmdastjóri, sem krýpur, svo Hrafnhildur Ragnarsdóttir sérkennslukennari, Margrét Rósa Sigurðardóttir menntaskólakennari og Jórunn Sigurðardóttir útvarpskona á RÚV. Og fyrir framan þær, krakkaskarinn. Ljósmynd/Ósk Vilhjálmsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert