Sundurlyndi varpar skugga á hátíðarhöldin

Gestir skreyta minnisvarða um Berlínarmúrinn blómum í dag.
Gestir skreyta minnisvarða um Berlínarmúrinn blómum í dag. AFP

Þrjátíu ár eru í dag liðin frá falli Berlínarmúrsins í Þýskalandi, upphafi endaloka Sovétríkjanna, á meðan hinn vestræni heimur þykir undirlagður af sundurlyndi. 

Fyrir tveimur dögum vakti Emmanuel Macron Frakklandsforseti mikla athygli þegar hann sagði að Atlantshafsbandalagið NATO væri „heiladautt“ og að Evrópa væri „á heljarþröm“. Angela Merkel Þýskalandskanslari brást við ummælum Macron af óvenjulega mikilli hörku og sagðist hún efast um að „svo tilkomumikill áfellisdómur væri nauðsynlegur“. 

Forsetar Tékklands, Slóvakíu, Póllands, Ungverjalands og Þýskalands við minningarathöfn í …
Forsetar Tékklands, Slóvakíu, Póllands, Ungverjalands og Þýskalands við minningarathöfn í Berlín í dag. AFP

Aðdragandi hátíðarhaldanna í Berlín í dag er annar en var fyrir fimm árum þegar Mikhail Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna og fyrrverandi forseti Póllands Lech Walesa  voru viðstaddir. Að þessu sinni varpa framgangur Donalds Trump Bandaríkjaforseta, Brexit og endurris Rússlands, skugga á samband þeirra ríkja sem saman höfðu mikil áhrif á fall múrsins á sínum tíma. 

Bjartsýnin uppurin

Ursula von der Leyen, verðandi forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, sagði í erindi sínu í Berlín í gær að mikilvægt væri að taka frelsi og lýðræði ekki sem sjálfsögðum hlut. Sagði hún að bjartsýnin sem einkenndi 9. nóvember 1989, sé uppurin. 

Angela Merkel Þýskalandskanslari við minningarathöfn í Berlín í dag.
Angela Merkel Þýskalandskanslari við minningarathöfn í Berlín í dag. AFP

„Í dag verðum við að viðurkenna að værukærð okkar var barnaleg,“ sagði von der Leyen. Rússland „notar ofbeldi til að breyta viðurkenndum landamærum í Evrópu og reynir að fylla upp í hvert tóm sem Bandaríkin skyldu eftir“. Þá segir hún vonir um að Kína þróaðist í átt að vestrænu lýðræði hafi ekki gengið eftir. 

Í viðtali við BBC sagði Mikhail Gorbachev að yfir heiminum vofi gríðarleg hætta vegna spennunnar á milli Rússlands og vestrænna ríkja. Sagði hann þjóðarleiðtoga sem komust til valda í kjölfar kalda stríðsins hafa mistekist að skapa nútímalegt öryggisfyrirkomulag. Segir hann að afleiðingar þessu séu sundrung á milli vestrænna ríkja og Rússlands í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert