Taldi lífstíðardómi lokið eftir hjartastopp

Maðurinn taldi sig hafa afplánað lífstíðarfangelsisdóm eftir hjartastopp.
Maðurinn taldi sig hafa afplánað lífstíðarfangelsisdóm eftir hjartastopp. AFP

Bandarískur dómstóll neitaði að láta fanga lausan úr haldi, sem hélt því fram að lífstíðarfangelsisdómi sem hann afplánar nú væri lokið eftir að hann „lést“ stuttlega. 

Benjamin Schreiber var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn í Iowa-ríki fyrir að berja annan karlmann til bana árið 1996. Hann er 66 ára gamall í dag.

Eftir því sem fram kemur á BBC hélt Schreiber því fram að hann hafi afplánað dóminn að fullu þegar hjarta hans hætti að slá fyrir fjórum árum og hann var endurlífgaður af læknum. 

Héraðsdómari sagði málstilbúnað Schreiber frumlegan en ósannfærandi. Sagði dómarinn að Schreiber væri væntanlega lifandi þar sem hann hefði sjálfur skrifað undir lagagögn í málinu. 

Árið 2015 fékk Schreiber nýrnasteina og í kjölfarið blóðeitrun. Hann fór í hjartastopp en var endurlífgaður af læknum á sjúkrahúsi og jafnaði sig síðan að fullu og var sendur aftur í fangelsi. 

Í kröfu Schreiber kemur fram að hann hafi verið endurlífgaður þvert á vilja hans og að stutt „andlát“ hans þýddi að lífstíðardóminum væri tæknilega lokið. 

Héraðsdómur hafnaði kröfu Schreiber og áfrýjaði lögmaður dómsúrskurðinum til áfrýjunardómstóls. Á miðvikudag staðfesti áfrýjunardómstólinn úrskurðinn og bætti við að fangelsisdómnum lyki þegar réttarlæknir úrskurðaði Schreiber látinn.

mbl.is