Grafreitir gyðinga í Randers vanvirtir

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur fordæmt skemmdarverkin Í Randers.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur fordæmt skemmdarverkin Í Randers. AFP

Skemmdarvargar vanvirtu meira en áttatíu grafir gyðinga í jótsku borginni Randers um helgina. Grænni málningu var úðað á grafirnar og sumum legsteinunum var snúið á hvolf, samkvæmt yfirlýsingu lögreglu um málið.

„Það voru engin tákn eða orð skrifuð á legsteina en málningu hefur verið makað á þá,“ segir Bo Christensen talsmaður lögreglu á Austur-Jótlandi í samtali við Ritzau-fréttaveituna dönsku.

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hefur fordæmt skemmdarverkin, sem hún kallar „árásir gegn dönskum gyðingum og okkur öllum,“ í fésbókarfærslu í dag.

„Ríkisborgarar af gyðingatrú verða að njóta virðingar og eiga ekki að þurfa að lifa í ótta,“ bætti Frederiksen við.

Davíðsstjarna einnig máluð á póstkassa í Silkeborg

Þessi skemmdarverk í Randers voru ekki einu merki gyðingahaturs í Danmörku þessa helgina. Í Silkeborg, sem er skammt vestan Randers, var Davíðsstjarna máluð á póstkassa gyðingafjölskyldu.

Hvort sem það er tilviljun eða ekki, áttu þessir atburðir sér stað á 81. afmæli Kristalsnætur, þeirra hörmungarverka sem brúnstakkar nasista og almennir borgar frömdu gegn gyðingum í Þýskalandi 9. og 10. nóvember 1938.

Einn leiðtogi danskra gyðinga segir, samkvæmt frétt AFP af málinu, að þetta sé sönnun þess að hugarfarið sem leiddi til helfararinnar fyrirfinnist enn árið 2019.

Randers er skammt sunnan við Árósa, stærstu borg Jótlands. Þar búa um hundrað þúsund manns og þar er helsta gyðingasamfélag Danmerkur, en flestir þeirra 6.000 gyðinga sem búa í Danmörku eru búsettir í Randers.

Fjörutíu og fimm and-semítískar árásir voru tilkynntar í Danmörku í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert