Forseti Bólivíu segir af sér

Evo Morales, sem verið hefur forseti Bólivíu síðan 2006, hefur …
Evo Morales, sem verið hefur forseti Bólivíu síðan 2006, hefur sagt af sér embætti. AFP

Evo Morales, forseti Bólivíu, hefur sagt af sér eftir mikinn þrýsting þar að lútandi, ekki síst frá her landsins. Herinn lýsti því yfir í dag að hann krefðist afsagnar hans „Bólivíu til heilla“, eftir að kosningaeftirlitsmenn frá Samtökum Ameríkuríkja (OAS) komust að því að alvarlegir annmarkar hefðu verið á forsetakosningum sem fram fóru í síðasta mánuði.

Róstusamt hefur verið í ríkinu allt frá kosningum, enda vakti það upp stórar spurningar um framkvæmd kosninganna þegar tekin var ákvörðun um að fresta því að birta lokatölur um heilan sólarhring án útskýringa.

Ráðist hefur verið gegn stjórnmálaleiðtogum sem eru hliðhollir Morales og hafa þrír látist og yfir 350 særst í átökum á milli ólíkra fylkinga frá því að kosningarnar fóru fram.

Williams Kaliman, hershöfðingi landsins, lýsti því yfir í dag að farið væri fram á Morales segði af sér embætti til þess að tryggja frið og stöðugleika í landinu. Að öðrum kosti hafði hann lýst sig reiðubúinn til þess að beita bæði loft- og landhernaði gegn vopnuðum hópum, hliðhollum forsetanum, sem hafa barið á stjórnarandstæðingum að undanförnu.

Stjórnarandstæðingar veifa fánum á götum úti í höfuðborginni La Paz …
Stjórnarandstæðingar veifa fánum á götum úti í höfuðborginni La Paz í dag. AFP

Morales reyndi að stilla til friðar með því að lýsa því yfir að hann hefði hug á því að boða til nýrra kosninga. Það dugði ekki og hann lýsti því yfir að hann ætlaði af sér á níunda tímanum í kvöld, að íslenskum tíma.

Annmarkar á nær öllu sem tengdist kosningunum

Í skýrslu um kosningarnar sögðu kosningaeftirlitsmenn að það hefðu verið annmarkar á nánast öllu sem tengdist þeim, tækninni sem hefði verið notuð, meðferð kjörgagna, talningunni og tölfræðiútreikningum.

Luis Almagro framkvæmdastjóri OAS sagði að ómerkja þyrfti niðurstöður kosninganna og hefja hið lýðræðislega ferli að nýju. Það verður nú væntanlega gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert