Fyrirfór sér eftir fund vopnasafns

Hluti þeirra 2.300 skotvopna sem fundist hafa við framkvæmd hinnar …
Hluti þeirra 2.300 skotvopna sem fundist hafa við framkvæmd hinnar þriggja ára löngu Bonanza-aðgerðar norsku lögreglunnar. Ljósmynd/Norska lögreglan

„Ég get ekki sagt neitt annað en að ég keypti hana ólöglega, þannig eru reglurnar bara. Ég keypti hana af glæpamanni.“ Þetta segir margdæmdur 48 ára gamall afbrotamaður í Skien, suðvestur af Ósló, þegar hann útskýrir fyrir blaðamanni dagblaðsins VG hvernig á því stendur að lögreglan fann hlaðna 45 kalíbera hálfsjálfvirka Colt-skammbyssu í fataskáp í svefnherberginu hans 11. október í fyrra.

Reyndar fann lögreglan ýmislegt fleira hjá Skien-búanum sem hefur hlotið fjölda dóma síðastliðin 25 ár og má þar nefna stolin vélhjól, amfetamín og skotfæri. 

Skráningarnúmer Colt-byssunnar fannst ekki á skrám lögreglunnar yfir stolin og horfin vopn og var þá leitað til annars aðila sem gæti vitað meira — norska hersins.

Þar fannst skráningarnúmer Colt-byssunnar strax á lista yfir skotvopn sem fargað hafði verið árið 2008, eða svo var að minnsta kosti hald þeirra manna sem fara með birgðastjórnun skotvopna hers Noregs.

Bonanza-aðgerð lögreglunnar

Lögreglan í suðausturumdæminu hefur um þriggja ára skeið haldið úti aðgerðinni Bonanza sem gengur út á að koma upp um afdrif mörg hundruð skotvopna sem horfið hafa úr geymslum lögreglu um gervallan Noreg. Aðgerðin leiddi lögregluna í óvænta átt, heim til eins af hennar eigin lögmönnum, Peter Ristan við embættið í Lillestrøm. Í sérútbúnu skotvopnaherbergi í kjallaranum fann húsleitarsveit frá lögreglunni 130 skammbyssur, riffla og haglabyssur sem horfið höfðu úr ranni lögreglunnar á nokkurra ára tímabili. Þetta var 14. febrúar 2017 en lögregla greindi ekki frá aðgerðinni fyrr en í maí á þessu ári. Hún þagði þó um Ristan og hans þátt. Frá þeim hluta málsins greindi VG fyrst nú í lok október.

Hluti vopnanna sem fundust við húsleit heima hjá Peter Ristan, …
Hluti vopnanna sem fundust við húsleit heima hjá Peter Ristan, lögmanni lögreglunnar í Lillestrøm. Hann var ekki yfirheyrður nema einu sinni áður en hann svipti sig lífi á skrifstofu sinni og skildi eftir bréf sem leiddi lögreglu að 400 skotvopnum til viðbótar sem hann hafði stungið undan. Ljósmynd/Norska lögreglan

Lögregla hafði haft auga á Ristan um nokkurt skeið vegna gruns um að hann styngi skotvopnum undan í ókunnum tilgangi. Það sem lögreglan ekki vissi var að Ristan vissi að hann var undir smásjá. Það hafði hann einfaldlega fundið út gegnum sinn eigin aðgang að kerfum lögreglunnar. Ristan var ekki yfirheyrður nema einu sinni, föstudaginn 17. febrúar 2017 fannst þessi 37 ára gamli lögmaður á skrifstofu sinni, fallinn fyrir eigin hendi.

Í bréfi sem Ristan skildi eftir á skrifborði sínu sagði hann frá öðrum og mun stærri skotvopnalager í geymsluhúsnæði sem hann leigði í Kløfta. Þar uppgötvuðu steini lostnir fyrrverandi samstarfsmenn lögmannsins 400 skotvopn til viðbótar, skammbyssur, riffla, hríðskotabyssur og haglabyssur. Stór hluti þessara skotvopna átti samkvæmt skrám að hafa verið tekinn úr umferð og stálstykki soðið inn í hlaup þeirra til að tryggja að þau yrðu ekki notuð frekar.

Ristan reyndist þá, líklega í samstarfi við óþekkta vitorðsmenn innan lögreglunnar, hafa falsað þennan umbúnað þannig, að stálbitinn var í raun ekki varanlega festur heldur virtist eingöngu vera það. Við húsleit hjá vopnasafnara í Hole fannst bréf frá Ristan þar sem hann hafði lagt fram pöntun á 23 slíkum bitum.

Segja herinn ekki vita um 1.600 byssur

Á blaðamannafundi sem lögreglan boðaði til 22. maí nú í ár greindi hún frá því að Bonanza-aðgerðin hefði leitt til þess að hald hefði verið lagt á 2.300 skotvopn í höndum rangra aðila. Einnig hefði aðgerðin afhjúpað 67 manns, þar af marga starfandi lögreglumenn, sem misfarið höfðu með skotvopn á saknæman hátt. Af þessum 67 störfuðu tveir á lögreglustöðinni í Lillestrøm þar sem Ristan heitinn hafði starfsstöð sína.

Norska lögreglan segir herinn ekki geta gert grein fyrir allt að 1.600 Colt-skammbyssum á borð við þá sem fannst heima hjá manninum í Skien. Af þeim fjölda átti mörg hundruð að hafa verið fargað fyrir áratug, en ekki er vitað að svo hafi í raun verið gert.

Skotvopnum fargað í herbúðum í Evenes í september 2009. Bonanza-aðgerð …
Skotvopnum fargað í herbúðum í Evenes í september 2009. Bonanza-aðgerð lögreglunnar hefur nú leitt í ljós að fjöldi skotvopna hersins, sem skráð er að hafi verið fargað, gengur kaupum og sölum í undirheimunum þar sem kaupa má 45 kalíbera Colt-skammbyssu fyrir jafnvirði 95.600 íslenskra króna. Ljósmynd/Norski herinn

„Við sjáum að skotvopn frá hernum hafa komist í hendur vopnasafnara og svo verið seld áfram frá þeim,“ segir Skule Worpvik yfirlögregluþjónn um Bonanza-aðgerðina og bætir því við að lögreglan hafi uppgötvað ákveðið sölumynstur frá jafnvel löglegum vopnasöfnurum yfir til afbrotamanna.

Maðurinn frá Skien hlaut í febrúar á þessu ári tveggja og hálfs árs dóm fyrir nokkur afbrot. Hann afplánar nú gegnum meðferðaráætlun norska dómskerfisins og fær með ýmsum skilyrðum að vinna fulla vinnu.

„Ég hef reynt að verða edrú í fjölda ára. Ég þori ekki að brjóta af mér þegar ég er edrú, ég stæli ekki einu sinni súkkulaði úti í búð edrú. Ég þurfti alltaf að vera í vímu þegar ég var að fara í verkefni sem handrukkari eða sækja fíkniefni,“ segir þessi tæplega fimmtugi afbrotamaður frá.

Hann segist enn fremur vita um fjölda skotvopna frá hernum sem séu til sölu í undirheimunum, hvort tveggja Colt-skammbyssur og AG-3-hríðskotariffla svo sem þann sem notaður var til að skjóta Arne Sigve Klungland, varðstjóra í lögreglunni í Stavanger, til bana í NOKAS-ráninu 5. apríl 2004 sem mbl.is rifjaði ítarlega upp í vor.

Maðurinn kýs að greina ekki frá því hvar hann fékk Colt-skammbyssuna, en segir þó að vopn á borð við hana, og fjölda annarra sem horfið hafa frá her og lögreglu í Noregi síðustu áratugi, megi kaupa í undirheimunum fyrir litlar 7.000 norskar krónur, 95.600 íslenskar.

VG (horfnu Colt-byssurnar)

VG (Peter Ristan afhjúpaður)

Aftenposten

NRK

Dagbladet (byssa frá hernum finnst í rúmi liðsmanns glæpagengis (2017))

Raumnes

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert