Íhugar kæru vegna nauðgunarásökunar

Leikstjórinn hefur verið sakaður um að brjóta á fjölda kvenna. …
Leikstjórinn hefur verið sakaður um að brjóta á fjölda kvenna. Á einni viku var hann ásakaður um að nauðga bæði átján og tólf ára gömlum stúlkum. AFP

Fransk- pólski kvikmyndaleikstjórinn Roman Polanski hyggst sækja franskt dagblað sem birti nauðgunarásökun á hendur honum til saka. Í blaðinu, Parisien, er Polanski ásakaður um að hafa nauðgað fyrrverandi leikkonu á áttunda áratugnum. Hún var þá átján ára gömul.

Polanski hefur áður verið sakaður um nokkur önnur kynferðisbrot og verið dæmdur fyrir að nauðga þrettán ára stúlku árið 1977. 

Í fréttinni sem birtist í Parisien á föstudag segir Valentine Monnier, ljósmyndari og fyrrverandi leikona, frá því þegar Polanski réðst á hana og nauðgaði henni við smáhýsi hans á svissneska skíðasvæðinu Gstaad árið 1975. Þá var Monnier átján ára gömul. 

„Ég hélt að ég myndi deyja“

Hún segir að Polanski hafi reynt að láta hana kyngja pillu á meðan árásinni stóð og síðar meir baðst hann afsökunar með tárin í augunum og grátbað Monnier um að lofa sér að segja engum frá því sem gerðist. 

„Ég hélt að ég myndi deyja,“ sagði Monnier í opnu bréfi sem birt var í Parisien ásamt viðtali við hana. Blaðið hafði samband við vitni sem staðfestu frásögn Monnier. 

Hún er fyrsta franska konan sem sakar Monnier um kynferðisofbeldi en kvikmynd hans J'accuse, eða upp á íslensku „Ég ásaka“, kemur út á miðvikudag. 

„Herra Polanski mótmælir þessari nauðgunarásökun harðlega,“ sagði Herve Temime, lögmaður Polanskis, í yfirlýsingu. 

„Við erum að vinna að málshöfðun gegn útgáfunni,“ bætti Temime við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert