Morðið í Malmö náðist á upptöku

Lögreglumenn við störf í Malmö. Myndin er frá því í …
Lögreglumenn við störf í Malmö. Myndin er frá því í sumar og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Stefan Sintéus, lögreglustjórinn í Malmö, hefur staðfest að skotárásin á Möllevangtorgi, þar sem einn fimmtán ára gamall strákur lét lífið og annar jafnaldri hans særðist, hafi náðst á myndbandsupptöku sem lögregla rýnir nú í. Þetta kemur fram í frétt um málið á vef sænska ríkissjónvarpsins, SVT.

Árásin átti sér stað um kl. 21 í gærkvöldi að staðartíma, fyrir framan pítsastað á torginu. Piltarnir tveir eru báðir fæddir árið 2004, en hafa þrátt fyrir ungan aldur komið við sögu hjá lögreglu, að sögn lögreglustjórans, sem segir lögregluna hafa ákveðnar kenningar um ástæðurnar að baki árásinni, en geti ekkert tjáð sig um þær á þessu stigi máls.

Árásarmennirnir, sem voru á reiðhjólum, hafa ekki fundist.

Nokkur morð og aðrir ofbeldisverknaðir hafa verið framdir í Malmö að undanförnu. Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að senda liðsauka til borgarinnar, til þess að hjálpa lögreglunni í borginni að takast á við ástandið.

Mikael Damberg, innanríkisráðherra Svíþjóðar, segir í skriflegu svari til SVT að lögreglan í Malmö ætti ekki að standa ein.

Morðið hefur vakið mikinn óhug í Malmö. Í dag hefur fjöldi fólks lagt leið sína að Möllevangtorgi og lagt blóm á staðinn þar sem árásin átti sér stað, auk þess sem þar hefur verið kveikt á kertum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert