Náðaði morðingja sænskrar táningsstúlku

Maithripala Sirisena forseti Srí Lanka.
Maithripala Sirisena forseti Srí Lanka. AFP

Fráfarandi forseti Srí Lanka hefur náðað fanga á dauðadeild sem myrti sænska táningsstúlku árið 2005. Ákvörðunin þykir gríðarlega umdeild og hefur valdið mikilli reiði í Srí Lanka. 

Jude Jayamaha, sem er af auðugri og þekktri fjölskyldu í Srí Lanka, er nú frjáls maður eftir náðun Maithripala Sirisena forseta. Fjölskylda fórnarlambsins segir Jayamaha ekki hafa sýnt neina iðrun vegna morðsins. 

Sirisensa er ekki í framboði fyrir forsetakosningarnar í Srí Lanka sem fara fram næsta laugardag þar sem hann fékk ekki stuðning flokks síns. Hann tilkynnti í síðasta mánuði að hann væri að íhuga að náða Jayamaha þar sem hann hafi hagað sér vel í fangelsi og hafi verið dæmdur 19 ára að aldri vegna „tilfellis af óþolinmæði“. 

Yvonne Jonsson, sem átti móður frá Srí Lanka, var barin til dauða í stigagangi íbúðarinnar þar sem móðurfjölskylda hennar bjó í höfuðborginni Colombo í kjölfar rifrildis við Jayamaha. Við réttarhöldin kom fram að höfuðkúpa hennar hafi verið brotin í 64 hluta. 

Jayamaha hlaut upprunalega 12 ára fangelsisdóm. Hann áfrýjaði dómnum og fór fram á að fangelsisdómurinn yrði látinn niður falla. Þess í stað var hann dæmdur til dauða og var sá dómur staðfestur af Hæstarétti árið 2014. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert