Erfitt heimilislíf undirrót dráps

Sunnivu Ødegård varð ekki meira en 13 ára auðið í ...
Sunnivu Ødegård varð ekki meira en 13 ára auðið í þessu lífi, aðfaranótt 30. júlí 2018 varð hún á vegi manns í hinum kyrrláta smábæ Varhaug í Rogaland sem ákvað að fara út og myrða fórnarlamb af handahófi með klaufhamri, misnota það kynferðislega og bera eld að líkinu til að sleppa frá heimilisaðstæðum og verja næstu árum bak við lás og slá. Ljósmynd/AFP

Nítján ára gamall maður, sem í sumar hlaut 11 ára varðveisludóm (n. forvaring) fyrir að myrða 13 ára gamla stúlku, Sunnivu Ødegård, í Varhaug, suður af Stavanger í Noregi, aðfaranótt 30. júlí í fyrra, sagði erfiðleika heima fyrir hafa orðið til þess að hann fór út þetta kvöld, ákveðinn í að velja sér fórnarlamb og myrða það.

Hinn dæmdi var rósemin uppmáluð og talaði af yfirvegun þegar rekstur áfrýjunarmálsins hófst fyrir Lögmannsrétti Gulaþings í Stavanger í morgun, skammt norður af smábænum Varhaug þar sem unglingsstúlkan mætti sviplegum örlögum sínum á leið heim frá vinkonu í fyrrasumar.

„Ég varð bara að koma mér í burtu [af heimilinu] og hugsaði með mér að fangelsisvist væri ekki sem verstur valkostur,“ sagði sakborningurinn í morgun og hélt enn fremur við tvö meginatriði framburðar síns sem Héraðsdómur Jæren í Sandnes lagði þó enga trú á við málflutning þar, nefnilega að annar maður, nafngreindur fíkniefnaneytandi á svæðinu, hefði borið eld að líki Sunnivu og að ákærði hefði ekki misnotað lík stúlkunnar kynferðislega heldur haft með sér sæði úr sjálfum sér á vettvang og hellt því yfir Sunnivu eftir að hann barði hana í hel með klaufhamri. Þetta hafi hann gert til að skilja eftir sig erfðaefni svo böndin bærust örugglega að honum.

Maðurinn hefur verið vistaður á stofnun síðan hann losnaði úr gæsluvarðhaldi en tveir dómkvaddir geðlæknar mátu ástand hans á verknaðarstundu sem neyslutengt geðrof sem telst í skiln­ingi norsks refsirétt­ar vit­und­ar­skerðing (n. be­vis­sthets­for­styr­rel­se), en ekki full­komið geðveikis­ástand sem tækt teld­ist sem ábyrgðarleys­is­ástæða við mann­dráp.

Sakborningurinn sætti sex vikna geðrann­sókn við Sand­viken-sjúkra­húsið í Ber­gen í októ­ber og nóv­em­ber í fyrra þar sem teymi tveggja geðlækna og átta hjúkr­un­ar­fræðinga og sjúkra­liða kom að geðmati hans. Mat geðlæknir greind­ar­vísi­tölu hans um 80 stig, en árið 2014 hafði hún verið met­in 70 – 75 stig sem telst á mörk­um greind­ar­skerðing­ar (e. bor­derl­ine impaired).

Haakon Meyer lögmannsréttardómari spurði ákærða hvort hann hefði einnig kosið að hella sæði yfir fórnarlamb sitt hefði það verið fullorðinn karlmaður.

„Já,“ svaraði viðmælandinn svipbrigðalaust.

„Gæti það verið að tilvist sæðisins væri frekar afleiðing kynferðislegs uppnáms en tilraun til að koma sönnunargögnum fyrir?“ vildi Meyer þá vita.

„Ég get ekki munað hvað ég var að hugsa á þessum tíma,“ var svarið.

Þriðja ungmennið til að hljóta varðveisludóm

Gert er ráð fyrir að málflutningi fyrir lögmannsrétti ljúki í næstu viku. Dómurinn í héraði er sögulegur fyrir þær sakir að þar er aðeins um að ræða þriðja tilfellið í norskri réttarsögu þar sem sakborningur er svo ungur á verknaðarstundu (í þessu tilfelli 17 ára) en hlýtur þó varðveisludóm, forvaring, sem er sams konar dómur og fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hlaut á sínum tíma, réttarúrræði sem gerir dómskerfinu kleift að framlengja afplánun hins dæmda svo lengi sem talið er, að fræðimanna yfirsýn, að brotamaður eigi ekkert erindi út í mannlegt samfélag þrátt fyrir að lágmarkstími (n. minstetid) sé afplánaður.

mbl.is