Fjárdrátturinn varð að fíkn

Hús héraðsdóms í Kaupmannahöfn.
Hús héraðsdóms í Kaupmannahöfn. AFP

„Ég fór að nota peninga til að kaupa mér hluti sem mig hafði dreymt um síðan ég var barn, en fékk aldrei. Þetta varð að fíkn; að taka mér fé og kaupa svo það sem mig langaði í.“ Þetta sagði Britta Niel­sen, sem ákærð er fyr­ir að hafa dregið sér 117 millj­ón­ir danskra króna frá danska rík­inu á tímabilinu 2002-2018, við réttarhöldin sem nú fara fram í Héraðsdómi Kaupmannahafnar.

Gangi réttarhaldanna er lýst á vef danska ríkisútvarpsins, DR. 

Mál Niel­sen hef­ur vakið mikla at­hygli í Dan­mörku og víðar, enda þykir at­b­urðarás­in vera með ólíkindum og allt að því reyf­ara­kennd. Hún er ákærð fyr­ir stór­felld fjár­svik og skjalafals og hafði starfað hjá dönsku fé­lagsþjón­ust­unni í ára­tugi áður en upp komst um sér­kenni­leg­ar og óútskýrðar styrkja­greiðslur úr sjóðum fé­lagsþjón­ust­unn­ar í ágúst í fyrra. Í kjöl­farið var gef­in út alþjóðleg hand­töku­skip­un á hend­ur Niel­sen sem þá var kom­in til Suður-Afr­íku, þar sem hún hafði keypt sér hús.

„Ég féll fyrir freistingunni“

Hún flúði land og var hennar leitað um nokk­urt skeið þar til hún var hand­tek­in í Jó­hann­es­ar­borg í Suður-Afr­íku í nóv­em­ber á síðasta ári. Ákæra var gefin út á hendur henni í maí síðastliðnum.

„Ég féll fyrir freistingunni. Ég var í fjárhagserfiðleikum,“ sagði Nielsen við réttarhöldin í morgun. Hún sagði þar að eiginmaður hennar hefði komist að fjárdrættinum, en hún hafði lagt fé, sem hún dró sér, á sameiginlegan reikning þeirra hjóna. „Hann spurði hvaða peningar þetta væru. Þegar ég gat ekki fundið neina sennilega skýringu sagði ég honum hvaðan féð kom. Hann varð virkilega reiður og ég lofaði að greiða peningana til baka. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að fara að því og ég hélt fénu, án þess að segja honum frá því.“

Hún sagði að síðan hefði hafist vítahringur sem hún hefði ekki komist út úr. Hún hefði stofnað sex bankareikninga sem maður hennar vissi ekki um og lagt þar inn féð sem hún dró sér. 

Þetta er í fyrsta skiptið, frá því réttarhöldin hófust í síðustu viku, sem Britta tjáir sig um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert