Lögregla skaut að mómælendum í Hong Kong

Fjölmenni mótmælti stjórnvöldum í Hong Kong um helgina og í nótt. Mótmælin, sem hafa staðið yfir í 24 vikur, voru að hluta til send út beint á samfélagsmiðlum, þar sést lögreglumaður skjóta grímuklædda mótmælendur og maður hella eldfimum vökva yfir annan mann og bera eld að honum. 

Hann er nú á sjúkrahúsi, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar, og ástand hans er sagt lífshættulegt. 

Skotárás lögreglumannsins bar til með þeim hætti að lögreglumaðurinn reyndi að hindra mann sem var að reyna að fara um þar sem hindranir höfðu verið settar upp. Annan mann dreif þar að og var sá skotinn. Annar maður úr hópi mótmælenda var einnig skotinn. Þá beitti lögregla táragasi og gúmmíkúlum gegn mótmælendum.

Myndskeið af fleiri atvikum af þessu tagi hafa verið sýnd á samfélagsmiðlum. Eitt þeirra sýnir lögreglumann aka mótorhjóli sínu inn í hóp fólks sem hafði safnast saman á götu úti til að mótmæla. 

„Ég skil ekki hvers vegna lögreglu finnst hún knúin til að beita ofbeldi gagnvart saklausu fólki. Mér finnst þetta komið úr böndunum,“ sagði kona úr hópi mótmælenda, sem kallar sig Chan, í samtali við AFP-fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert