Saka bólivíska herinn um valdarán

Evo Morales ásamt hershöfðingjanum Williams Kalim­an á góðri stundu fyrr ...
Evo Morales ásamt hershöfðingjanum Williams Kalim­an á góðri stundu fyrr á árinu. AFP

Forseti Bólivíu, sem sagði af sér embætti í gær í kjölfar þrýstings, hefur sakað her landsins um valdarán við undirtektir bandamanna sinna í Rússlandi, Kúbu og Mexíkó, þar sem hann hefur auk þess hlotið pólitískt hæli.

Þá hefur Spánn lýst áhyggjum sínum af stöðu bólivíska hersins og segja ástandið minna á augnablik í sögu latnesku Ameríku fyrr á árum.

Evo Morales sagði af sér embætti forseta Bólivíu í gær eftir mikinn þrýsting frá almenningi og loks her landsins, eftir að upp komst að verulegir annmarkar hefðu verið á forsetakosningunum í síðasta mánuði.

Ekkert lát virðist vera á óeirðum í La Paz þrátt ...
Ekkert lát virðist vera á óeirðum í La Paz þrátt fyrir afsögn forsetans. AFP

Morales virti lög landsins, sem kveða á um að forsetar megi aðeins sitja þrjú kjörtímabil í röð, að vettugi og bauð sig fram í kosningunum sem fram fóru í október. Róstu­samt hef­ur verið í rík­inu allt frá kosn­ing­unum, enda vakti það upp stór­ar spurn­ing­ar um fram­kvæmd þeirra þegar tek­in var ákvörðun um að fresta því að birta loka­töl­ur um heil­an sól­ar­hring án út­skýr­inga.

Það var svo í gær, sunnudag, sem hershöfðingi landsins, Williams Kalim­an, lýsti því yfir að farið væri fram á afsögn forsetans til að tryggja frið og stöðugleika og lýsti sig reiðubúinn til að beita loft- og landhernaði gegn vopnuðum stuðningsmönnum forsetans.

Afsögn forsetans virðist þó ekki hafa haft tilætluð áhrif enn sem komið er, en miklar óeirðir hafa verið í La Paz, höfuðborg landsins, undanfarinn sólarhring.

Evo Morales hefur hlotið hæli í Mexíkó.
Evo Morales hefur hlotið hæli í Mexíkó. AFP

Frétt BBC

mbl.is