Vinna fyrir Ríki íslams í frítíma sínum

Háhýsabyggð í Singapore. Margar kvennanna verða fyrir menningaráfalli við flutninginn ...
Háhýsabyggð í Singapore. Margar kvennanna verða fyrir menningaráfalli við flutninginn til stórborgarinnar. Mynd úr safni. AFP

Sex daga vikunnar störfuðu konurnar þrjár sem húshjálp á heimilum í Singapore. Í frítíma sínum unnu þær svo við að auglýsa vígasamtökin Ríki íslams á netinu, gáfu fé til vígamanna erlendis og voru orðnir það miklir öfgatrúarmenn að að minnsta kosti ein þeirra var tilbúin láta líf sitt í sjálfsvígsárás í Sýrlandi.

CNN fjallar um málið og segir konurnar, sem allar eru indónesískir ríkisborgarar, hafa verið handteknar í Singapore í september á grundvelli hryðjuverkalöggjafar. Eiga þær allt að 10 ára fangelsisdóm yfir höfði sér og sekt að andviði rúmar 45 milljónir króna.

Talsmaður indónesíska sendiráðsins í Singapore staðfesti handtökurnar og sagðist veita konunum aðstoð, en þær eiga enn ekki rétt á lögfræðiaðstoð þar sem þær eru enn til rannsóknar hjá yfirvöldum og hafa ekki verið ákærðar.

Sérfræðingar í hryðjuverkum segja þetta ekki eina dæmið um að erlent verkafólk hafi verið fengið til liðs við öfgasamtök á meðan viðkomandi vinni í stórborgum í Asíu á borð við Singapore eða Hong Kong.

Fólk á götu í Singapore. Þær konur sem sæta slæmri meðferð af hálfu vinnuveitanda eru sérstaklega viðkvæmar fyrir innleiðingu vígamanna. Mynd úr safni. AFP

Ríki íslams beinir sjónum sínum til Asíu

Segir CNN Ríki íslams nú beina sjónum sínum til Asíu í vaxandi mæli eftir fall kalífadæmis samtakanna í Miðausturlöndum og eru vígamenn nú sagðir leitast við að snúa konum til öfgatrúar. Slíkt er þó sagt gert með minna skipulögðum hætti en áður.

Nava Nuraniyah, vísindamaður við IPAC hugveituna í Indónesíu segir vígamenn í vaxandi máli nýta sér konurnar í fjárhagsskyni. „Þær eru með fastar tekjur, tala ensku og eru venjulega með nokkuð breitt alþjóðlegt net kunningja sem gerir þær að fullkomnu fórnarlambi,“ segir Nuraniyah.

Um 250.000 erlent verkafólk starfar í dag sem húshjálp í Singapore og 385.000 í Hong Kong. Einungis brotabrot af þessum fjölda hefur þó snúist til öfgatrúar.

„Mikill meirihluti erlendra starfamanna eru löghlýðnir og leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins,“ segir talsmaður innanríkisráðuneytis Singapore. „Það eru engu að síður til einstaklingar sem falla fyrir ofbeldisfullri hugmyndfræði Ríkis íslams.“

Að sögn hryðjuverkasérfræðinga er meirihluti þeirra sem það hafa gert indónesískir ríkisborgarar.

Aðhyllast öfgatrú eftir persónuleg áföll

Í rannsókn sem IPAC framkvæmdi á árunum 2015 og 2017  á erlendu verkafólki kom í ljós jaðarhópur að minnsta kosti 50 indónesískra kvenna sem störfuðu erlendis sem barnfóstrur, þernur og sem umönnunaraðilar fyrir eldri borgara og studdu Ríki íslams. 43 í þessum hópi voru búsettar í Hong Kong, fjórar í Singapore og þrjár í Taívan.

Nuraniyah segir leiðina að öfgatrú hjá konunum yfirleitt byrja með einhverjum áföllum í einkalífinu og eftir það getur ferill verið nokkuð hraður. Nefnir hún dæmi um konu sem var tískufíkill en varð á innan við ári að hörðum stuðningsmanni Ríkis íslams.

„Þær ganga annað hvort í gegnum skilnað, komast í skuldir eða verða fyrir menningaáfalli við flutning á stað sem er mjög ólíkur heimkynnum þeirra,“ segir Nuraniyah og kveður þetta algeng vandamál fyrir erlent verkafólk. Sumir sæti ennfremur illri meðferð af hálfu vinnuveitenda sinna  og er sá hópur sagður vera sérlega viðkvæmur fyrir innrætingu á netinu.

Vígamaður Ríkis íslams í Sýrlandi. Sumar kvennanna hafa reynt að komast til Miðausturlanda til að taka þátt í baráttunni. AFP

Eru einmana og vantar vini

„Þær eru einmana og finna því hjá sér þörfina fyrir að vera í samskiptum við aðra Indónesa, annað hvort á netinu eða í raunheimum,“ segir Diovio Alfath, sem starfar hjá indónesískum samtökum sem hjálpa til við endurhæfingu fórnarlamba öfgavæðingar. „Þar sem þær skortir félagstengslin sem þær myndu venjulega leita til eftir ráðum þá geta þær ekki tekist á við öfgahugmyndafræðina sem þær eru mataðar á.“

Í einhverjum tilfellum eiga þær þegar vin á Facebook sem er hlynntur Rík íslams, eða þá að þær detta niður á vefsíður vígamanna. Sumar eru þá innrættar með aðstoð annarra húshjálpa, við bænastund eða á samkomu eftir vinnu.

„Ég fór að hluta á Salafi hlaðvarp á meðan ég var að þrífa húsið,“ sagði ein indónesísku húshjálpanna í viðtali við IPAC. „Síðan fylgdi ég því fólki á Facebook sem virtist vera mikið íslamstrúar af því að mig vantaði vini til að leiðbeina mér.“ Kvaðst hún sérstaklega hafa komist við er hún sá myndir af múslimskum fórnarlömbum í Sýrlandsstríðinu á Instagram.

Síðan kynntist hún indónesískum slátrara í gegnum netið sem bjó í Batam. Hann hvatti hana svo til að ferðast til Sýrlands og ganga til liðs við Ríki íslams. Stjórnvöld í Singapore komust hins vegar upp um áform hennar og létu senda hana aftur til Indónesíu árið 2017.

Kærastinn oft vendipunkturinn

Vendipunktinum er svo venjulega náð þegar þær eignast kærasta á netinu úr hópi vígamannanna. Í kjölfarið er þeim boðið að taka þátt í lokuðum spjallhópum í gegnum dulkóðuð öpp.

„Það er þarna sem hlutirnir raunverulega gerast,“ segir Zachary Abuza  sérfræðingur í málefnum Ríkis íslams í Suðaustur Asíu. „Þarna deila menn myndum af sprengjuhönnun og virkt samstarf á sér stað.“

Þegar innleiðingunni er að fullu náð kann hluti hópsins svo að giftast kærastanum, en aðrar verða virkar við fjármögunum, leit að nýjum liðsmönnum og samhæfingaraðgerðir, t.d. við að skjóta húsaskjóli yfir vígamenn á leið til Sýrlands og ganga frá flugmiðum fyrir þá. Enn aðrar reyna svo að komast til Miðausturlanda til að taka þátt í baráttunni sjálfar og höfðu að minnsta kosti 12 þeirra sem IPAC bar kennsl á reynt að komast til Sýrlands.

Undanfarið hafa sumar hins vegar verið hvattar til að flytja til Filippseyja sem eru nú sífellt meira í kastljósinu hjá Ríki íslams.

mbl.is