„Á góðum degi drep ég 10-12 hunda“

Hundar í búri í sláturhúsi í Siem Reap-héraðinu í Kambódíu.
Hundar í búri í sláturhúsi í Siem Reap-héraðinu í Kambódíu. AFP

Seljendur hundakjöts í Kambódíu láta ýmist drekkja, kyrkja eða stinga til bana þúsundir hunda dag hvern. AFP-fréttaveitan segir starfsfólkið sem látið er framkvæma slátrunina ekki bara vera berskjaldað gegn banvænum sjúkdómum á borð við hundaæði, heldur sé það illa farið andlega eftir vinnuna.

Khieu Chan, einn starfsmannanna, brestur í grát þegar hann lýsir vinnu sem sækir á hann í svefni. Hann drepur allt að sex hunda daglega með því að skera þá á háls.

„Fyrirgefið mér, ef ég drep ykkur ekki get ég ekki séð fjölskyldu minni farborða,“ segir Chan við hundana tíu í búrinu sem bíða þar örlaga sinna.

Hundakjöt er enn víða á matseðlinum í ríkjum Asíu, m.a. í Kína, Suður-Kóreu og Víetnam, sem og í þeim samfélögum Indónesíu þar sem íbúar eru ekki múslimar.

Að sögn dýravelferðarsinna hefur neysla á hundakjöti dregist saman hjá miðstéttum þessara landa í takt við aukna gæludýraeign. Aukin skömm fylgir nú líka hundaáti, en kjöt þeirra telst þó enn vera ódýr próteingjafi.

Hundur í búri við hlið drekkingarpytts í sláturhúsi. Sú aðferð …
Hundur í búri við hlið drekkingarpytts í sláturhúsi. Sú aðferð er mikið notuð til að drapa hundana svo vein þeirra heyrist ekki. AFP

Hundakjöt á matseðlinum sem „sérstakt kjöt“

Hrottaleg verslun með hunda þrífst hins vegar eftirlitslaus í Kambódíu og segir AFP nýja rannsókn sýna að þar séu starfrækt óleyfileg sláturhús, hundafangarar ferðist um og fjöldi veitingastaða í borgum landsins selji hundakjöt sem svonefnt „sérstakt kjöt“.

Dýravelferðarsamtökin Four Paws telja á bilinu tveimur til þremur milljónum hunda vera slátrað árlega í Kambódíu og fundu samtökin rúmlega 100 veitingastaði í höfuðborginni Phnom Penh sem eru með hundakjöt á matseðlinum.

„Þetta er mikil verslun,“ segir dýralæknirinn Katherine Polak sem starfar fyrir Four Paws. Hún segir yfirvöld í Kambódíu hafa orðið fyrir áfalli að uppgötva umfangið sem tilgreint er í skýrslunni.

Starfsmaður dýraverndarsamtaka með hund sem bjargað var úr sláturhúsi í …
Starfsmaður dýraverndarsamtaka með hund sem bjargað var úr sláturhúsi í Kambódíu. AFP

Skipta á búsáhöldum fyrir hunda

Hundafangarar ferðast um norðurhluta Kambódíu og skipta þar út pottum, pönnum og öðrum eldunaráhöldum fyrir hunda sem enginn vill eiga. Þeim er þvínæst komið fyrir í búri aftan á hjólinu og afhentir milliliðum. Fyrir lifandi hunda fást greiddir 2-3 dollarar á kílóið og hvetur sú greiðsla hundafangarana til verka.

Að sögn vísindamanna er salan með hundakjöt þó ekki bara varhugaverð út frá dýraverndunarsjónarmiðum, heldur líka vegna sýkinganna sem dýrin geta borið með sér.

Óvíða í veröldinni er hundaæði til að mynda algengara en í Kambódíu og flestar sýkinganna greinast eftir hundsbit.

Salan á hundakjöti grefur líka undan tilraunum til að bólusetja og koma í veg fyrir sjúkdóma þegar hundum sem búið er að bólusetja er slátrað.

Kona tekur hér potta og pönnur af hjóli hundaveiðimanns sem …
Kona tekur hér potta og pönnur af hjóli hundaveiðimanns sem skiptir við íbúa á búsáhöldum og hundum sem hann svo selur millilið sláturhúsanna. Í búrinu á hjólinu má sjá glitta í hund. AFP

Hvorki hlífðarfatnaður né öryggiseftirlit

Aðstæður í sláturhúsunum eru heldur ekki heilsusamlegar, starfsfólk klæðist engum hlífðarfatnaði,  engum öryggisreglum er fylgt eftir, né heldur hafa eftirlitsaðilar stjórnvalda eftirlit með slátruninni.

„Ég varð fyrir hundsbiti, en ég lét ekki bólusetja mig af því að ég var ekki búinn í vinnunni fyrr en seint um kvöld,“ segir Pring That á meðan hann eldar hundakjötskássu í þorpinu Siem Reap. Þess í stað hreinsaði hann sárið með sápu og sítrónu.

Í þróaðri ríkjum þar sem sláturhúsin eru á iðnaðarskala er þess gætt að hafa nokkra fjarlægð milli starfsfólks og dýranna. Í hundaslátruninni í Kambódíu eru ástandið hins vegar annað. Þar taka starfsmenn, berir að ofan, á móti hundum, og nota prik til að koma þeim inn í búr. Hundarnir eru því næst hengdir með reipi, barðir með kylfu í höfuðið eða þeim drekkt í pytti af fúlu vatni.

„Á góðum degi drep ég 10-12 hunda,“ segir Hun Hoy, starfsmaður eins sláturhússins og fyrrverandi hermaður. „Ég vorkenni þeim, en ég verð að kyrkja þá,“ segir hann.

Hundafangarar geta hagnast um 750-1.000 dollara í landi þar sem laun í fataverksmiðju eru undir 200 dollurum. Framleiðsluhraðinn skiptir þó öllu.

„Það tekur fyrr af ef maður slær þá,“ segir Dara sem bæði veiðir, verslar með og slátrar hundum. „Ég veit að þetta er synd,“ bætir hann svo við.

„Flestir kjósa þó að drekkja hundunum og segir kona sem starfar við slátrunina að með því þurfi starfsfólk ekki að hlýða á vein hundanna.

Kjötið er svo selt til veitingastaða þar sem það er vinsæll matur hjá verkafólki sem grillbiti eða í súpu sem selst fyrir um 1,25 dollara.

Sálræna áfallið sem slátrunin veldur þeim sem hana stunda er þó slíkt að hér um bil allir þeir sem finna betra starf taka því.

Hundar í búri í sláturhúsi í Kambódíu. Þeir eru ýmist …
Hundar í búri í sláturhúsi í Kambódíu. Þeir eru ýmist hengdir, stungnir til bana eða þeim drekkt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert