Handjárnaður fyrir að borða samloku á brautarpallinum

Foster var að borða samloku á brautarpallinum þegar hann var …
Foster var að borða samloku á brautarpallinum þegar hann var handtekinn. mbl.is/pinterest

Yfirmaður lestarkerfis San Francisco hefur beðið svartan mann sem var handtekinn fyrir að borða samloku á brautarpalli afsökunar á atvikinu. Hefur hann heitið því að atvikið verði rannsakað, en það hefur vakið mikla reiði almennings sem hefur sagt regluna sem bannar neyslu matar á lestarstöðvum kynþáttahatur.

Á annan tug manna stóð fyrir „át-mótmælum“ á lestarstöðinni nú um helgina og aðrir hafa haldið áfram að mótmæla viðbrögðum lögreglu við atvikinu.

Það var 4. nóvember sem lögregla handtók 31 árs mann sem var að borða samloku á leið sinni til vinnu. Var honum ekki sleppt fyrr en hann hafði gefið upp nafn sitt.

Yfirmenn lestarstöðvanna segja málið nú í rannsókn, en bann er lagt við neyslu matar á þeim svæðum lestarstöðvanna sem farþegar komast ekki inn á nema hafa greitt fargjaldið. Segja yfirvöld bannið vera til að halda stöðvunum hreinum, en að það ætti þó ekki að hafa þau áhrif að fólk komist ekki til vinnu á réttum tíma.

„Við þurfum að taka á hverju máli fyrir sig og leyfa fólki að komast þangað sem það ætlar sér á réttum tíma,“ hefur Guardian eftir Bob Powers, yfirmanni lestarkerfisins. „Ég er vonsvikinn yfir hvernig mál þróuðust þarna.“

15 mínútna myndband af samskiptum Steve Fosters, mannsins með samlokuna, og lögregluyfirvalda hefur fengið mikla dreifingu á samfélagsmiðlum. Hafa samfélagsmiðlanotendur sagt viðbrögð lögreglu hafa verið fáránleg og einkennst af kynþáttahatri.

Það var kærasta Fosters sem tók upp myndbandið og sýnir það hvernig lögreglumaður heldur í bláan Mikka Músar-bakpoka Fosters og segir honum að hann muni ekki láta hann lausan fyrr en hann gefi upp nafn sitt.

„Þú hefur engan rétt á að snerta pokann minn,“ heyrist Foster segja. „Þú hefur engan rétt á að borða samloku á Bart [Bay Area Rapid Transit-lestarstöðvunum],“ svarar lögreglumaður.

Deilurnar halda áfram í um átta mínútur, eða þar til lögreglumanninum barst liðveisla og Foster var leiddur á brott í handjárnum.

Að sögn yfirmanna lestanna var lögreglumaðurinn á leið í annað útkall er hann sá Foster borða á lestarpallinum og sagði honum að hætta. Þegar lögreglumaðurinn sá Foster svo enn vera að borða er hann var á leið til baka úr útkallinu ákvað hann að sekta hann.

Foster segist hins vegar hafa vitað að neysla matar í lestunum væri óheimil, en að hann hefði ekki vitað að bannið gilti líka á lestarpallinum. Farþegar neyti jú oft matar og drykkjar á lestarpallinum og jafnvel líka um borð í lestunum.

Hann hefði því talið lögreglumanninn vera að vara hann við því að borða ekki um borð í lestinni og því hefði hann verið að flýta sér að klára samlokuna.

„Síðan tók ég upp pokann minn og var á leið í röðina þegar hann greip í pokann og sagði: „Þú ert ekki að fara neitt. Þú ert á leið í fangelsi,“ rifjar Foster upp.

Kveðst hann hafa upplifað að hann hefði verið valinn út vegna kynþáttar síns og hyggst leggja fram kæru gegn lögreglu fyrir sektina, en þar er honum gert að greiða 250 dollara sekt eða gegna 48 stunda samfélagsþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert