Hefur aldrei séð slíka áverka áður

Grace Millane var á bakpokaferðalagi í Nýja-Sjálandi þegar hún lést.
Grace Millane var á bakpokaferðalagi í Nýja-Sjálandi þegar hún lést.

Grace Millane lést vegna langvarandi þrýstings á háls hennar á meðan kynmökum stóð. Þetta kom fram í máli réttarmeinafræðings við réttarhöld yfir manni sem sakaður er um að hafa myrt Millane í Auckland í Nýja-Sjálandi í fyrra. Í ljós kom við réttarhöldin í dag að maðurinn laug að lögreglu um hvenær hann hitti ungu konuna síðast. 

Guardian fylgist með réttarhöldunum í Auckland en Millane var á bakpokaferðalagi í Nýja-Sjálandi þegar hún var myrt í desember. 

Réttarmeinafræðingurinn dr. Simon Stables segir að áverkarnir sem voru á líki Millane séu afar óalgengir og nánast óþekktir. Hann hafi aldrei áður heyrt um slíka áverka í Nýja-Sjálandi.

Stables bar vitni í réttarhöldunum yfir 27 ára gömlum Nýsjálendingi sem er ákærður fyrir að hafa myrt Millane sem var 21 árs þegar hún lést. Hann neitar sök.

Stables rannsakaði lík Millane í fyrsta skipti þann 9. desember þegar lík hennar fannst í ferðatösku sem hafði verið grafin í Waitakere Ranges í útjaðri Auckland. 

Hann segir að á annan tug áverka hafi fundist á líkama hennar og að níu þeirra séu sennilega frá þeirri stundu sem hún lést. Þeir voru á upphandleggjum, vinstra viðbeini og á vinstri öxl. Áverkarnir á öxl og handlegg voru greinilega eftir viðspyrnu hennar við ofbeldinu sem hún var beitt. Spurður um hvort áverkarnir geti verið vegna kynmaka eða sogblettir sagði hann áverkana of stóra til að geta verið sogblettir en mögulega gætu þeir verið eftir kynmök. Verjandi mannsins segir að Millane hafi látist af slysförum þegar hún tók sjálfviljug þátt í kynlífi en saksóknari segir að hún hafi verið myrt. 

Að sögn Stables er hægt að fullyrða að hún lést vegna þrýstings á háls hennar sem varði svo lengi að hún kafnaði. Eins hafi verið beitt mjög miklu afli við að þrýsta á háls hennar að hún fékk mikla  áverka. Áverkarnir á vinstri hlið líkama hennar séu svo miklir að um ofbeldi hafi verið að ræða. Yfirleitt taki það manneskju fjórar til fimm mínútur að deyja sem verður fyrir sambærilegu ofbeldi í Millane varð fyrir. 

Fram kom við réttarhöldin í dag að Stables hefði komið að rannsókn á því þegar fólk hefur kafnað við sjálfsfróun en aldrei þegar tveir hefðu sjálfviljug mök.  

Sá ákærði sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu 6. desember að hann hefði síðast hitt Millane 1. desember um klukkan 20 á stefnumóti á veitingastað. Hann hafi í kjölfarið farið á bar og setið einn að drykkju til klukkan 23. Fram hefur komið við réttarhöldin að þetta var lygi. 

Verjandi mannsins spurði hvort ekki væri möguleiki á að áfengi haft áhrif á dauða Millane þar sem mikill vínandi geti komið í veg fyrir að fólk jafni sig eftir lítið súrefnisflæði. Stables segir að það sé ekki rétt í þessu tilviki. 

mbl.is