„Bein áhrif loftslagsbreytinga“

Umfangsmikil flóð í Feneyjum síðasta sólarhring eru bein afleiðing loftslagsbreytinga að sögn Luigi Brugnaro borgarstjóra og hyggst hann lýsa yfir neyðarástandi. 

Björg­un­ar­sveit­ir eru á ferðinni til þess að kanna af­leiðing­ar flóðanna og BBC greinir frá því að tveir séu látnir sökum vatnsveðursins. Skólum hefur verið lokað vegna flóðanna. 

Ástandið er hvað verst á Markús­ar­torgi, lægsta punkti borgarinnar, en …
Ástandið er hvað verst á Markús­ar­torgi, lægsta punkti borgarinnar, en þar mátti sjá öldugang í morgun vegna hvassviðris sem fylgdi úrkomunni. AFP

Flóðaviðvör­un­ar­bjöll­ur hafa ómað í Fen­eyj­um í morg­un og flætt hefur yfir stóran hluta borgarinnar. Vatns­hæðin hef­ur ekki verið jafn há í rúma hálfa öld og í dag. Sjáv­ar­staðan hækkaði í 1,87 metra í morg­un og er vatns­elg­ur á göt­um borg­ar­inn­ar þannig að ferðamenn hafa átt fót­um sín­um fjör að launa. 

Sjaldgæft er að sjávarstaðan sé jafn há og nú en það hefur einu sinni gerst frá því að mælingar hófust árið 1923. Það var fyrir rúmum 50 árum, árið 1966, þegar hún mældist 1,94 metrar. „Ríkisstjórnin verður að hlusta,“ segir Brugnaro í færslu á Twitter. 

„Þetta eru bein áhrif loftslagsbreytinga. Kostnaðurinn verður gríðarlegur,“ bætir borgarstjórinn við. 

Björg­un­ar­sveit­ir eru á ferðinni til þess að kanna af­leiðing­ar flóðanna.
Björg­un­ar­sveit­ir eru á ferðinni til þess að kanna af­leiðing­ar flóðanna. AFP

Á myndum má sjá vinsæla ferðamannastaði sem eru nánast á kafi í vatni. Ástandið er hvað verst á Markús­ar­torgi, lægsta punkti borgarinnar, en þar mátti sjá öldugang í morgun vegna hvassviðris sem fylgdi úrkomunni. Þá hefur einnig flætt inn í Markúsarkirkjuna og er það í sjötta sinn sem vatn flæðir inn í hana á 1.200 árum, samkvæmt gögnum kirkjunnar. Fjögur flóðanna hafa orðið á síðustu 20 árum. Ekki er ljóst hversu miklar skemmdirnar eru.

Vinsælir ferðamannastaðir eru nánast á kafi í vatni líkt og …
Vinsælir ferðamannastaðir eru nánast á kafi í vatni líkt og meirihluti borgarinnar. AFP
Vatn flæddi inn í Markúsarkirkjuna en óljóst er hversu miklar …
Vatn flæddi inn í Markúsarkirkjuna en óljóst er hversu miklar skemmdir hafa orðið vegna flóðanna. AFP
mbl.is