Forseti Namibíu vill losna við spillta ráðherra

Hage Geingob, forseti Namibíu.
Hage Geingob, forseti Namibíu. AFP

Hage Geingob, forseti Namibíu, hyggst láta bæði Sacky Shanghala dómsmálaráðherra og Bernhardt Esau sjávarútvegsráðherra víkja úr ríkisstjórn landsins vegna umfjöllunar um málefni Samherja í Namibíu. Greint er frá þessu í namibíska fjölmiðlinum Namibian Sun í dag.

Vísað er til háttsettra heimildarmanna innan stjórnkerfis landsins, en forsetinn er sagður hafa gert það ljóst í morgun að mennirnir tveir yrðu að víkja. „Þeir verða að fara,“ er haft eftir Geingob.

Ekki kemur þó skýrt fram í frétt Namibian Sun hvort forsetinn hyggist reka ráðherrana eða setja þá í leyfi.

Geingob forseti er hið minnsta sagður búinn að fá nóg af síendurteknum ásökunum um spillingu á hendur mönnunum tveimur, sem báðir eru sagðir hafa tekið við mútugreiðslum frá Samherja og greitt leið fyrirtækisins að aflaheimildum undan ströndum landsins.

Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Bernhardt Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu. Skjáskot úr þætti Kveiks.
mbl.is

Bloggað um fréttina