Ummæli Frakklandsforseta „óásættanleg“

Forsetarnir tveir voru sammála um að ummæli kollega þeirra frá …
Forsetarnir tveir voru sammála um að ummæli kollega þeirra frá Frakklandi hefðu ekki verið til sóma. AFP

Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, gagnrýndi ummæli Frakklandsforseta, Emmanuel Macron, harðlega á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í Washington í Bandaríkjunum í dag. Macron sagði í síðustu viku að Atlantshafsbandalagið (NATO) væri „heiladautt“ en Erdoğan sagði ummælin óásættanleg.

Erdoğan var í Hvíta húsinu í boði Donald Trump Bandaríkjaforseta í dag og fundaðu forsetarnir í nokkra klukkutíma ásamt nokkrum öldungardeildarþingmönnum Repúblikaflokksins áður en sameiginlegur blaðamannafundur forsetanna hófst.

Trump tók undir með Tyrklandsforseta og sagði hann vera „virkilega vonsvikinn“ með ummæli Frakklandsforseta. „Ég held að þessi ummæli hafi farið fyrir brjóstið á honum og mörgum öðrum,“ sagði Trump áður en Erdoğan sagði ummælin hafa verið „óásættanleg.“

Macron sagðist með ummælum sínum vera að vísa til hverfandi hollustu Bandaríkjanna við NATO og nefndi sem dæmi að Bandaríkin hefðu ekki ráðfært sig við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins áður en þau ákváðu að draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands. Macron varaði önnur Evrópuríki við því að þau gætu ekki lengur treyst á Bandaríkin til að verja NATO-samstarfið.

Trump og Erdoğan náðu sáttum

Fundurinn í Hvíta húsinu í dag er sagður hafa verið haldinn til að „hreinsa loftið“ milli Trump og Erdoğan en þeir lentu upp á kant við hvorn annan í kjölfar innrásar Tyrkja í Sýrlands í síðasta mánuði. Trump varaði Erdoğan meðal annars við því að vera „harðjaxl“ og „bjáni“ í bréfi sem Erdoğan er sagður hafa hent í ruslið.

mbl.is