„Boeing var við jarðarför föður míns en ekki ég“

Brak úr farþegaþotu Ethiopian Airlines. Djúpur gígur myndaðist þar sem …
Brak úr farþegaþotu Ethiopian Airlines. Djúpur gígur myndaðist þar sem vélin hrapaði og var honum ekki lokað fyrr en í dag. AFP

Zipporah Kuria berst við tárin. Átta mánuðum eftir að farþegaþota Ethiopian Airlines hrapaði voru líkamsleifar þeirra fórnarlamba flugslyssins sem ekki tókst að bera kennsl á grafin. Kuria var ekki á staðnum. Kuria missti föður sinn í flugslysinu. Hún var ekki á staðnum í dag.

Fulltrúar flugfélagsins og Boeing-flugvélaframleiðandans, en vélin var af gerðinni Boeing 737 Max, voru hins vegar viðstaddir athöfn þegar mokað var yfir kisturnar og gíginn sem myndaðist í flugslysinu. Þar sem skammur fyrirvari var gefinn varðandi athöfnina gátu Kuria og fjöldi annarra ættingja fórnarlambanna hins vegar ekki komist á staðinn í tæka tíð. Raunar náðu einungis ættingjar tveggja þeirra 157 sem fórust að vera á staðnum.

BBC hefur eftir ættingjum þriggja fórnarlamba að þau hafi frétt af athöfninni með þriggja daga fyrirvara.  

„Þetta er fáránlegt og ég skelf við tilhugsunina um að Boeing og Ethiopian Airlines hafi verið við jarðarför föður mín en ekki ég,“ segir Kuria.

Mátti sjá mannabein fljóta í pollum

Flugslysið átti sér stað í dreifbýli suðaustur af höfuðborginni Addis Ababa og myndaðist við það djúpur gígur sem allt þar til í þessari viku geymdi enn brak úr vélinni og hluta af líkamsleifum fórnarlambanna. Hafa fjölskyldur fórnarlambanna greint frá því að þau hafi fyllst skelfingu er þau heimsóttu slysstaðinn í síðasta mánuði og sáu að bein og aðrir munir höfðu ratað upp á yfirborðið í  rigningunum undanfarið. Sums staðar mátti sjá þau fljóta í pollum í gígnum.

Þegar blaðamenn BBC heimsóttu svæðið í maí á þessu ári var það aðeins lauslega girt af og gátu dýr ferðast þar um án vanda þar sem engir verðir voru á svæðinu. Fjölskyldur fórnarlambanna segja ástandið bara hafa versnað eftir því sem leið á regntímann og hafa lengi krafist aðgerða.

„Bein voru stöðugt að skjóta upp kollinum, þannig að fólk úr nágrenninu var að koma á staðinn og grafa yfir þau. Við viljum að Ethiopian Airlines flytji allt inn í gíginn, líka líkamsleifarnar sem ekki hafa verið borin kennsl á, og moki yfir,“ sagði Nadia Millieron, sem missti dóttur sína Samaya Rose Stumo í slysinu, nýlega við BBC.

Forsvarsmenn Ethiopian Airlines, sem hafa umsjón með svæðinu, sögðust þá vita af vandanum en fullyrtu að vandamál vegna krafna um tryggingagreiðslur hefðu komið í veg fyrir að slíkt væri gert.

Skylda að tilkynna ættingjum

Vegna þrýstings frá ættingjum og eftir umfjöllun fjölmiðla segir BBC þessar hindranir hins vegar nú virðast vera að baki. Í dag voru líkkistur með líkamsleifum sem ekki hafa verið borin kennsl á lagðar á botn gígsins áður en mokað var yfir. Svæði er nú orðið að varanlegri gröf.  

Ættingjar fórnarlambanna telja flugfélaginu hins vegar hafa borið skylda til að tilkynna þeim um fyrirhugaða greftrun og gefa þeim meiri fyrirvara.

Sagði Kuria það „átakanlegt“ að hafa ekki geta verið þar. Hún hefði stokkið um borð í næstu flugvél hefði það verið hægt. „Þeir hafa rænt okkur lúkningunni,“ segir hún.

mbl.is