Frá einskinsmannslandi til Bandaríkjanna

Muhammad Darwis B hefur undanfarna daga dvalið á landamærunum og …
Muhammad Darwis B hefur undanfarna daga dvalið á landamærunum og hafa tyrkneskir landamæraverðir gefið honum að borða. AFP

Bandaríkjamaður, sem talinn er vera liðsmaður vígasamtakanna Ríkis íslams, sem vísað var úr landi í Tyrklandi og Grikkir neituðu að taka við, verður sendur til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá tyrkneska innanríkisráðuneytinu en undanfarna daga hefur maðurinn verið fastur í einskinsmannslandi á landamærum Tyrklands og Grikklands.

Muhammad Darwis B er bandarískur ríkisborgari af jórdönskum ættum. Hann var handtekinn í Sýrlandi grunaður um tengsl við Ríki íslams. Tyrknesk yfirvöld sögðu að stjórnvöld í Washington hefðu neitað að taka við honum og að hann hefði sjálfur óskað eftir því að vera framseldur til Grikklands. En grísk yfirvöld vildu ekki sjá hann þar í landi þegar honum var vísað frá Tyrklandi á mánudag. Hann hefur síðan beðið átekta á landspildu á landamærunum. Tyrkneskir landamæraverðir í Edirne-héraði hafa síðan gefið honum að borða og útveguðu bíl sem hann gæti sofið í á nóttunni. 

En í dag gaf innanríkisráðuneytið út tilkynningu um að búið væri að ganga frá samkomulagi um að Bandaríkin tækju við manninum. Í síðustu viku sagði innanríkisráðherra Tyrklands, Suleyman Soylu, að tæplega 1.200 útlendir vígamenn væru í haldi tyrkneskra yfirvalda. Í gær kom fram að verið væri að undirbúa brottvísun 959 þeirra úr landi. Flestir þeirra eru frá Írak, Sýrlandi og Rússlandi.

mbl.is