Kennari hótaði að skjóta nemendur

Kennarinn var handtekinn.
Kennarinn var handtekinn. AFP

Framhaldsskólakennari á sextugsaldri í Washington-ríki vestanhafs hefur verið handtekinn en kennarinn hótaði því að skjóta nemendur.

Julie Hillend-Jones, kennari við skóla skammt fyrir utan borgina Seattle, dró hótanir sínar ekki til baka þegar lögregla yfirheyrði hana á miðvikudag og var hún færð í varðhald.

Ekki er greint frá því hvers vegna Hillend-Jones hótaði því að skjóta nemendur sína. Hún lét ummælin falla á þriðjudagskvöld við aðra fullorðna manneskju sem hafði samband við skrifstofu skólans. Þaðan var haft samband við lögreglu.

„Þegar krakkar hóta svona hlutum enda þeir í fangelsi. Kennarar þurfa líka að vera ábyrgir fyrir orðum sínum,“ sagði lögreglustjórinn Ed Troyer í samtali við fjölmiðla í Bandaríkjunum.

Engin vopn fundust á heimili Hillend-Jones við handtökuna.

Einn nemandi hennar sagði í samtali við fjölmiðla að hótunin hefði komið mjög á óvart.

mbl.is