Ofbeldisfull átök milli stríðandi fylkinga í Bólivíu

Táragasi var beitt gegn stuðningsmönnum Evo Morales í átökunum í ...
Táragasi var beitt gegn stuðningsmönnum Evo Morales í átökunum í dag. AFP

Átök brutust út fyrir utan forsetahöllina í La Paz í Bólivíu í dag milli stuðningsmanna Evo Morales, fyrrverandi forseta landsins, og öryggissveita bólivíska hersins á fyrsta degi Jeanine Áñez í embætti forseta landsins.

Öld­unga­deild­arþingmaður­inn Je­an­ine Áñez lýsti sjálfa sig forseta Bólivíu til bráðabirgða í gær eftir að Evo Morales sagði af sér embætti. Hún er þingmaður stjórnarandstöðunnar í Bólivíu.

Átökin, sem eru sögð hafa verið ofbeldisfull, brutust út á meðan Áñez var að skipa í nýja yfirstjórn hersins að því er fram kemur á AFP-fréttaveitunni. Hún hefur lýst því yfir að boðað verði til kosninga í landinu fljótlega.

Morales hefur fordæmt aðgerðir Áñez og segir hana vera eina af þeim sem stóðu fyrir valdaráni í Bólivíu. Morales flúði til Mexíkó fyrr í vikunni þar sem hann hefur sótt um pólitískt hæli. 

AFP
AFP
mbl.is