101 þjóðerni í sömu gufunni

Nýtt heimsmet í fjölda fólks af ólíkum þjóðernum var sett í gær þegar 101 gufubaðsgestur tróð sér inn í gufubað í höfuðborg Finnlands. Fyrra metið var sett í Kína árið 2013 er þjóðernin voru 99 talsins.

Samkvæmt reglum Heimsmetabókar Guinness varð fólkið að vera í gufubaðinu í fimm mínútur að lágmarki en hitastigið var stillt á 60 gráður. Eins urðu þátttakendur að færa sönnur á þjóðerni sitt með því að sýna gilt vegabréf. Það voru nemendur og kennarar við Haaga-Helia-háskólann sem stóðu að verkefninu með stuðningi frá erlendum sendiráðum í Helsinki.

Árið 2009 settu nemendur sama skóla heimsmet í gufubaði með þátttakendum frá 76 löndum.

mbl.is