Boris segir engar sannanir fyrir afskiptum Rússa

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands á fundi með stuðningsmönnum.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands á fundi með stuðningsmönnum. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands segir „engar sannanir“ vera fyrir því að rússnesk stjórnvöld hafi haft afskipti af breskum stjórnmálum. Johnson sagði þetta í viðtali við eina af útvarpsstöðvum BBC í dag, en þrýstingur hefur farið vaxandi á stjórnina að birta skýrslu um málið áður en Bretar ganga að kjörborðinu í 12. desember.

Skýrslan sem um ræðir var unnin af njósnanefnd þingsins, en fjölmiðlar hafa áður sagt að í skýrslunni sé að finna upplýsingar um áhyggjur breskra leyniþjónustustofnanna af meintum tilraunum Rússa til að hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðslu Breta árið 2016 um útgönguna úr Evrópusambandinu og þingkosningarnar árið eftir.

Búið var að ritskoða skýrsluna í október og gera hana hæfa til birtingar út frá öryggissjónarmiðum, en síðan hefur birting hennar beðið samþykkis skrifstofu forsætisráðherrans.

Dominic Grieve, formaður njósnanefndarinnar, hefur sagt gerð skýrslunnar hafa verið lokið í mars og að hún innihaldi upplýsingar sem eigi erindi við kjósendur.

Fyrr í mánuðinum sagði Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, síðan í samtali við BBC að það væri „óskiljanlegt og skammarlegt“ að bresk stjórnvöld væru ekki búin að birta skýrsluna.

Johnson hefur hins vegar sagt enga ástæðu til að breyta hefðbundnu ferli varðandi birtingu á skýrslum njósnanefndar „bara af því að það eru kosningar“.

„Það eru engar sannanir, og maður verður að fara varlega í þessum efnum og ekki bera út róg um alla sem koma frá ákveðnu landi, bara á grundvelli þjóðernis þeirra,“ hefur BBC eftir Johnson. 

Að sögn BBC hafa fyrri upplýsingar bent til þess að aðgerðir Rússa í Bretlandi hafi ekki verið á sambærilegum skala og í bandarísku forsetakosningunum 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert